Laugardagur, 2. ágúst 2008
Áfram með ferðina
Á sunnudaginn 13. júlí komum við heim frá Selfossi - við ætluðum að vera lengur í ferðinni en okkur þótti það ekki spennandi vegna rigningar. Sigurgeir sonur Nonna kom heim frá Ameríku og dró það okkur frekar en ekki í bæinn. Fyrst fórum við í sumarbústað Óla og Iðunnar - stoppuðum þar til rúmlega 17 og héldum síðan í bæinn. Fórum fyrst heim og síðan borðuðum við á Aski. Þar var allt fullt og þurftum við að bíða nokkuð. Á meðan á biðinni stóð tókum við tali hjón sem dvalið höfðu lengi í Noregi og voru hér í stuttri heimsókn. Þegar komið var að okkur taldi þjónninn að við værum saman og samþykktum við það. Höfðum við ánægjulega stund með þeim Siggu og Gunnari. Gunnar er málmsmiður og vinnur við Olíuborpalla.
Á mánudaginn 14. júlí töluðum við Elínu og var að samkomulagi að Sandra fengi að gista hjá okkur um nóttina. Fyrsti forgangur hjá henni var að hitta Bertu Maju vinkonu sína. Sandra hafði nýlega kvatt hana og farið til Ameríku og vissi Berta ekki af þessari ferð hennar. Mamma Bertu bauð Söndru inn í herbergi Bertu og lét Bertu ekki vita af hvað biði hennar þegar hún færi þangað upp. Það var stórt spurningarmerki í svip Bertu að sögn þegar hún sá Söndru í herberginu.
Mánudagurinn fór í snatt. M.a. með mömmu Nonna og fl. um kvöldið (mánudags) ók mamma Bertu Söndru til okkar og gisti hún á dýnu við rúm okkar um nóttina. Á þriðjudag þurftum við að fara með húsbílinn á verkstæði til að láta setja á hann markísu sem við höfðum pantað. Sandra skottaðist með okkur. Nonni þurfti síðan að fara í sjúkraþjálfun og voru þær Sandra og Sigga í rólegheitum á meðan og Sigga bakaði pönnukökur. Kristján Geir kom síðan rétt fyrir kvöldmat og sótti Söndru og fór með hana til Stokkseyrar. Um kvöldið ætluðum við í bíó en fengum ekki miða. Litum við þess í stað við hjá Hrefnu og Guðjóni. (systur Nonna og mági.)
Á miðvikudaginn sóttum við m.a. húsbílinn, versluðum inn í Bónus með smá kaffisopa á Kaffi París og undirbjuggum síðan kvöldmat, en Kristján og Birna ætluðu að borða með okkur. Á fimmtudaginn fór Sigga í kaffi í vinnuna sína með Helgu og Nonni borðaði með Steina á Kaffihúsi. Nonni fór síðan í sjúkraþjálfun og síðan var rólegt kvöld heima. Föstudagsmorgun fórum við bæði í hársnyrtingu um morguninn. Eftir hádegi fórum við í jarðaför Péturs Leifs Péturssonar, bróður Elínar tengdadóttur Nonna. Pétur Leifur var aðeins 46 ára þegar hann lést.
Eftir jarðarför og erfidrykkju skutumst við á Selfoss til Elínar og Birgis. Laugardaginn var brúðkaup Bjarna Kjartanssonar, bróðursonar Nonna. Gift var í Bústaðarkirkju og veislan var í turninum, hæsta húsi á Íslandi . Falleg athöfn og mikil og góð veisla. Maturinn alveg einstakur.
Þá er komið að Sunnudeginum. 20. Júlí, Við mættum rétt fyrir hádegi á 101 til að kveðja fjölskyldu Sigurgeirs þ.e. Sigurgeir og Elínu ásamt Söndru. Hin börnin þ.e. Unnur og Pétur ætluðu að vera áfram á Íslandi, Unnur hjá ömmu sinni á Stokkseyri og Pétur hjá föðurfólki sínu fyrir norðan. Það komu fleiri - Kristján og Heba, Marta, foreldrar Bertu Maju og systir (ásamt Bertu) og Pétur Guðfinns. Öllum var boðið upp á hádegissnarl. Við Sigga fengum okkur humarsúpu. Þetta var mjög hugguleg stund. Um kvöldið borðuðu Iðunn og Óli hjá okkur og var spilað fram til kl. 1 eftir miðnætti.
Á mánudeginum 21. Júlí komu þeir Pétur Guðfinnsson og Pétur Þór Ágústsson ( sonarstjúpsonur Nonna) í mat í hádeginu . Við lögðum síðan af stað norður í land um miðjan daginn, eftir að hafa sótt gas fyrir bílinn og annað sem þurfti til að undirbúa ferðinni. Við tókum olíu ó Borgarnesi, stoppuðum á Baulu og keyptum okkur ís og héldum síðan sem leið lá á Blönduós. Við vorum komin þangað um átta leytið um kvöldið og snæddum þá loks kvöldverð. Okkur þótti tjaldstæðið ekki eins snyrtilegt eins og fyrir ári síðan þegar við gistum þar seinast. Það getur verið að álagið hafi verið meira og við höfum hitt illa á.
Þriðjudaginn 22. Fórum við af stað upp úr hádeginu. Lögðum bílnum út á varnargarð við héraðsvötnin í Skagafirði ekki langt frá Bólu. Við tókum nokkrar myndir og héldum síðan ferðinni áfram til Akureyrar. Fyrst litum við við hjá Ellu og Sævari, Ella var ein heima og sýndi hún okkur garðinn við hús þeirra. Þau fluttu norður í nýtt einbýlishús fyrir þremur árum og höfðu standsett garðinn í sumar. Feikilega flott allt hjá þeim.
Rétt fyrir kl. 4 um eftirmiðdaginn kom Sævar heim með yfirmenn frá Vegagerðinni. Eftir innlitið fórum við á tjaldstæðið að Hrafnagili, fórum í sund eftir kvöldmat. Stuttu eftir sundið komu Sigrún og Elli í heimsókn og spiluðu Kana fram yfir miðnætti. Veðurspáin er góð fyrir þann tíma sem við verðum hér fyrir norðan. Það var að vísu rigning á leiðinni norður en í morgun
23. Júlí var brakandi sólskin og 21 stiga hiti. Nonna fannst svolítið heitt í lognmollunni en Sigga kann að njóta slíks. Sóluðum við okkur fram yfir hádegi. Fórum svo í hjólatúr. Nonni hafði fylgst með skýjabökkum fram í firði eins og það heitir víst hér fyrir norðan innst í dal (Eyjafirði) Þegar við höfðum hjólað um þrjá kílómetra benti Nonni á að farið væri að rigna innst í firðinum (dalnum) og stakk upp á að við snerum við til að verða á undan rigningunni. Þegar við komum til baka hafði regnið nálgast. Tókum við því saman stóla, borð jarðdúk og markísu. Við vorum að pakka saman seinustu hlutunum þegar regnið byrjaði að hallast yfir okkur.
Þá var haldið til Akureyrar, verslað og litið í heimsókn til Ölmu og Ægis (Ægir er móðurbróðir Siggu). Fórum við síðan til Dalvíkur, Bjuggum um okkur á tjaldstæðinu, elduðum okur kvöldverð. Eftir hann lituðum við við hjá foreldrum Siggu og erum nú að hugga okkur við þessi bloggskrif og hannyrðir.
Elsku vinir og ættingjar
Njótið lífsins og hafið það gott.
Ykkar Nonni og Sigga
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 12. júlí 2008
8-12 júlí
Það hefur verið yndislegt veður það sem af er frísins. Nú erum við á Selfossi í rigningu. Það er svo sem freystandi að fara heima og vera þar yfir blauta helgi. Við ætlum samt að njóta veðursins með því sem það hefur upp á bjóða þ.e. huggulegheitum inn í bílnum. Þá erum við vel búin regngöllum og ætlum að hjóla út í Bónus o.fl.
En víkjum aftur til 8. Júlí þegar við hættum síðast. Við enduðum síðustu skrif með áætlun um að fara á Selfoss. Á leiðinni ókum við fram hjá afleggjara að sumarbústað Gabríelu stjúpdóttur Siggu. Nonni spurði Siggu hvort Gabríela væri í bústaðnum og taldi Sigga svo ekki vera svo við héldum áfram að Selfossi. Undir Ingólfsfjalli hringdi Síminn. Það var Gabríela. Hún hafði séð bílinn aka fram hjá Þrastalundi þar sem hún var stödd, reynt að veifa án árangurs. Við hittum hana ásamt dætrum hennar þremur á Olísstöðinni við brúarsporðinn á Selfossi þar sem hún bauð öllum upp á ís. Það er alltaf gaman að hitta þessa yndislegu fjölskyldu.
Við keyptum síðan inn og héldum í þjórsárver samkomustaðinn rétt fyrir neðan Urriðafoss í þjórsá. Við komum okkur þar fyrir og kynntumst eldri hjónum af austfjörðum. Konan hafði byrjað barneignir 16 ára og stoppaði eftir 7 unda barnið þá 26 ára. Það voru engar getnaðarvarnir sagði hún nema smokkurinn og annað hvort var kynlífsbindindi eða barneignir. Mér var hugsað til áróðursins fyrir að nota smokkinn í dag en sagði ekkert. Upphaf kynnana var að þau báðu Nonna að aðstoða sig við sjónvarpið. Nonni kenndi þeim á það, en það þarf að leita að rásum sjónvarpsins á hverjum nýjum stað. Upp frá því vorum við vinir þeirra og þau gættu svæðisins meðan við skottuðumst um á bílnum.
Fyrsta kvöldið var rólegt. Við náðum sjónvarpssambandi og hlustuðum á fréttirnar í ríkissjónvarpinu. Okkur þykir dagskrá þess ekki merkilegt og höfum ekki horft á annað en fréttir.
Það var sólskyn og hiti þegar við vöknuðum eins og fyrri dagana. Við ætluðum að fara með hana Unni Sigurgeirsdóttur sem dvelur hjá Hebu ömmu sinni á Stokkseyri í hjólatúr.
Þegar við vorum á leiðinni út af tjaldstæðinu hittum við vinafólk okkar Ástu og Halla. Þau voru á húsbíl sem þau höfðu nýlega fest kaup á höfðu áður verið með hús á pallbíl (PicUp) Við sögðumst mundu hitta þau þegar við kæmum til baka.
Heba hafði sagt að hægt væri að fá lánuð hjól hjá sundlauginni á Selfossi. Við fórum því á Stokkseyri upp úr hádegi og sóttum Unni, fórum með hana á Selfoss og reyndum að fá hjól lánuð. Þau voru öll í lamasessi, vindlaus dekkin líklega sprungin dekkin. Við gengum fram og til baka eftir aðalgötunni til að finna ísbúð sem Unnur sagði að bæri af öðrum. Að lokum tókst að finna hana og Unnur pantaði sér ís í stóru pappaformi með niðurmuldu alls kyns sælgæti. Algjört dúndur. Við fengum okkur barnaís. Venjulega eru barnaísar litlir en ekki virtist miklu til sparað í þessum ísum. Við fundum strax af hverju Unnur vildi fara í þessa ísbúð því ísinn var óvanalega sætur. Eftir ísbúðina gengum við nokkra stund um Selfoss og héldum síðan á Stokkseyri aftur og drukkum hjá Ömmu Hebu. Hún var að mála húsið sitt sem er timburhús við sjávarkambinn og þarf því mikið viðhald. Hún gaf sér þó tíma í smá spjall á veröndinni.
Við hittum Ástu og Halla smá stund um kvöldið elduðum okkur nautahakk á pönnu með venjulegum 300 gramma grænmetisskammti að hætti dönsku vigtarráðgjafanna og höfðum það rólegt .
Nú er komið að 10 júlí. Við höfðum pantað tíma í reiðtúr fyrir Nonna og Unni. Við höfðum sammælst við Hebu að koma með Unni á Selfoss um kl. 12 og áttum að vera mætt að Egilstöðum 1 rétt við Þjórsárver kl. 13. Við gáfum okkur tíma fyrir smá spjall við Hebu áður en við héldum til Egilstaða. Reiðtúrinn átti að vara einn og hálfan tíma. Sigga ætlaði að sóla sig á meðan við húsbílinn. Í stað þess að hestarnir væru klárir og allir settir á bak og ferðinni lokið á tilsettum tíma voru hestarnir valdir, farið með þá inn í hesthús. Þar voru helstu tökin kennd og þátttakendur kemdu hver sínum hesti. Þá voru hnakkar sóttir og beisli og hver fékk sinn hjálm við hæfi. Allt tók þetta feikilegan tíma. Nonna fannst nú lítill tími til reiðar ef standa ætti við eins og hálftíma planið. Þá var haldið út og enn kennt að fara á bak og farið enn frekar yfir stjórnun hestanna. Tíminn var næstum búinn en saman riðum við þýskt par, við Unnur, þýsk stelpa sem var í vinu á bænum og bóndinn sjálfur. Fyrst var farið fetið. Þá var farið á hægu tölti. Eftir svolítinn tíma var farið út af veginum um hestaslóð sem lág þar um móann. Komið af rúst sem bóndinn sagði að væri af gömlum fjárhúsum, riðið niður að veginum aftur og upp að Urriðafossi. Þar var farið af baki og tekin mynd og vatnsmesti foss landsins skoðaður. Áform eru uppi um að virkja neðri hluta Þjórsár og verður þá fossins aðeins smá spræna miðað við það sem hann er nú. Á leiðinni út af mólendinu þurfti að ríða niður nokkurn bratta. Leiðbeint var að halla sér aftur en þetta reyndi á og þurfti Nonni að stíga af baki og liðka sig aðeins eftir þá raun.
Eftir þrjá og hálfan tíma lauk síðan þessu ævintýri. Reiðtúrinn tók einn og hálfan tíma eins og lofað var og var hitt allt saman viðbót.
Sigga hafði að vonum orðið svolítið óróleg. Þau voru þreytt Nonni og Unnur. Við héldum að þjórsárveri. Nonni grillaði hunangslegnar reyktar svínakódelettur. Við ræddum aðeins við hjónin sem við sögðum ykkur frá og lagði Unnur sig á meðan. Sigga setti í þvottavél og við lentum í basli með hana vegna þess að þvotturinn tók lengri tíma en peningamaskínan gerði ráð fyrir. Á meðan Nonni kom til hjálpar grilluðust kódeletturnar aðeins meira en ætlað var. Þær runnu samt ljúflega niður og enginn kvartaði.
Eftir matinn ókum við Unni niður á Stokkseyri. Kristján var að hlaða bíl þeirra hjóna af græjum fyrir Rakú þ.e. sérstök keramikbrennsla. Þó klukkan væri að ganga 9 að kveldi var ætlun þeirra að fara að brenna rakú líklega fyrir bryggjuhátíð sem átti að vera um helgina næstu.
Við kvöddum því og Nonni fór aðeins í heitapottinn í sundlauginn á staðnum til að ná úr sér stirðleikanum eftir reiðtúrinn.
Í pottinum var maður sem Nonni þekkti ekki í fyrstu en tók tali. Hann kvaðst hafa búið á Eyrabakka seinustu 20 árin. Hann spurði Nonna hvort hann væri héðan. Nei en fyrrverandi kona mín býr í húsinu sem Margrét frímansdóttir byggði Já Herborg Auðunsdóttir svaraði maðurinn, Hún er vinkona fyrstu konunnar minnar. Það kom í ljós að hann hafði verið í partýhóp sem Heba var í þegar Nonni og hún kynntust og höfðu þeir verið í partýum saman á gamladaga. Spjölluðu þeir um fólkið sem hafði verið með þeim í þá daga og nokkuð af því sem drifið hafði á daga þeirra.
Sá siður er þarna í sundlauginn að færa gestum drykk í pottinn. Nonni þáði djús og fannst þetta einstaklega huggulegt.
Þá var haldið í Þjórsárver og farið snemma í háttinn.
11. júlí héldum við á Selfoss. Við byrjuðum á að fara á tjaldstæðið og koma okkur fyrir. Þar hefur verið byggð aðstaða sem er til fyrirmyndar. Mjög hreinlegt og nýtt hús með salernum, sturtum og þvíumlíku. Þá var hægt að þvo þvott í vél. Við löguðum svolítið til, hjóluðum um bæinn, fórum á kaffihús og höfðum það gott. Eftir kvöldsnarl hjóluðum við til Elínar og Birgis en Birgir hafði verið útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði. Þau höfðu byggt hús á Selfossi, n orðan ár fyrir áratugum og selt það þegar þau fluttu vegna starfa Birgis. Þau höfðu keypt það aftur þegar Birgir hætti að vinna. Það var í niðurníðslu og hafa þau endurnýjað það allt. Nýtt gólfefni, eldhúsinnrétting, baðinnréttingar. Allt er þetta eins og best verður á kosið. Birgir hefur séð um þetta allt sjálfur og hefði enginn iðnaðarmaður gert það betur. Allt gert af mikilli vandvirkni og smekkvísi. Þau voru langt komin með þetta þegar við heimsóttum þau seinast en þá var garðurinn ófrágenginn. Nú höfðu þau fengið verlaun fyrir garðinn. Þau höfðu látið hanna hann og síðan hafði Birgir hlaðið veggi, lagt stéttar sléttað flötinn og skorið, komið fyrir fjölda ljósa í planið og beðin og fleira og fleira, allt af mikilli vandvirkni. Við ræddum við þau yfir bollum af tei og kaffi með kræsingum með og hjóluðum heim um 11. Leytið.
Kæru vinir og ættingjar
Við sendum ykkur okkar bestu óskir
Ykkar vinir og ættingjar
Nonni og Sigga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 12. júlí 2008
4. - 8 júlí
8. júlí færsla
Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna 4. Júlí kom að kveðjustund fjölskyldu Sigurgeirs og hélt hún til Ameríku þ.e. öll nema Unnur. Við komum saman eftir hádegi á 101 hótelinu við Hverfisgötu þar sem foreldrarnir höfðu dvalið í nærri þrjár vikur. Á neðstu hæðinni er ákaflega heimilislegt kaffihús sem hafði verið stofa þeirra hjóna á meðan á dvölinni hér stóð.
Saman komu auk fjölskyldunnar, Dúna systir Hebu og Kristján Geir og Pétur Guðfinns ásamt okkur Siggu. Við sötruðum kaffisopa og te þar til kom að tilfinningaríkri stund kveðjum. Sandra hafði kvartað um í maganum um morguninn og við töldum hugsanlegt að það stafaði af þeirri spennu sem kveðjustundin skapaði enda talaði hún um að þetta tæki á.
En semsagt örfá tár mörg knús og góðar óskir og síðan var farið hver í sína áttina.
Við héldum um kvöldið á húsbílnum til Þingvalla og gistum þar á tjaldstæðinu eina nótt. Veðurspáin var glimrandi og fríið loksins byrjað. Um kvöldið fórum við í góðan göngutúr um tjaldstæðið. Helgin var taliðn ein mesta ferðahelgi ársins næst á eftir verslunarmannahelgi. Sumarleyfi margra byrjar í júlí. Víða er vandræði vegna drykkju og þjóðgarðurinn auglýst grimmt að hann væri fjölskyldustaður og engin drykkja liðist þar. Við höfðum samt áhyggjur af því að auglýsingarnar stæðust ekki. Okkur leyst þó vel á fólkið sem þar var Unglingar höfðu greinilega ekki fjölmennt. Um 11 leytið um kvöldið virtust allir lagstir til hvílu og fórum við snemma í háttinn og leystum nokkrar súdókur áður en Óli Lokbrá tók völdin.
5. júlí fórum við yfir heiðina til Laugarvatns. Afgreiddum þau atriði sem tilheyra húsbílnum, - vatn og salernismál og fórum í heimsókn til Helgu og Jóhanns (Helga er vinnufélagi Siggu) sem eiga hjólhýsi í hverfi slíkra húsa. Hús þeirra stendur fremst í byggðinni nýlegt Hoby hjólhúsi - mjög stórt sett upp á steyptar undirstöður. Pallur er við það og fortjald kyrfilega fest niður með nöglum í pallinn. Við sátum svolitla stund í fortjaldinu og sötruðum te og kaffi röbbuðum saman og skoðuðum næsta nágrenni.
Þá fórum við til baka yfir heiðina . Við skoðuðum- laugarvatnshellinum og síðan héldum við að sumarbústaði vinarfólks okkar Óla og Iðunnar. Við höfum verið hér við bústaðinn síðan, Gengið á daginn m.a. upp á Miðfellið, sleikt sólskinið og eytt síðan kvöldum og fram á nætur við að spila kana.
Nú er morgun 8. júlí og ætlunin að fara á Selfoss að kaupa inn, ef til vill að skola af okkur í sundi þó við höfum farið í sturtu í húsbílnum. Það er tilbreyting að þura ekki að spara hvern dropa.
Lífið er bæði gleði og sorg. Bróðir Elínar tengdadóttur Nonna lést eftir erfiða sjúkdómslegu og fékk Nonni að vita það í gær. Sá bjó á Spáni og höfðum við hitt hann í heimsóknum hans hingað til lands og einnig dvaldi hann hjá Elínu meðan við vorum í New York á síðasta ári. Við söknum hans og samhryggjumst öllum sem hann syrgja nú.
Kæru vinir og ættingjar
Við sendum ykkur okkar bestu óskir
Ykkar vinir og ættingjar
Nonni og Sigga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 4. júlí 2008
Byrjun júlí
Jæja - frá hverju á að segja ykkur kæru vinir og ættingjar nú í byrjun júlí.
Sigurgeir sonur Nonna hefur verið á landinu með fjölskyldu sína -þau ætluðu að vera löngu farin en vinna Sigurgeirs hjá Glitni tafði þau.
Í stað þess að vera á stöðugu húsbílaferðalagi höfum við tekið túra og skottast með dætrum Sigurgeirs á milli.
Þegar þau komu fyrir nærri því þremur vikum vorum við í Grindavík. Heimsóttum við m.a. vini okkar þar sem sýndu okkur plássið og buðu okkur í kaffi.
Við misstum því af því þegar Sigurgeir kom beint úr flugi í heimsókn - aðeins og sein. Sandra fór til Bertu Maju vinkonu sinnar og Unnur til ömmu Hebu (fyrri konu Nonna). Við hræddumst því að fá lítið að sjá þær.
Með þolinmæði breyttist þetta. Við buðum öllum til veislu - grill með fjölskyldunni, Auðunni, syni Nonna og fjölskyldu ( Súsönnu og Knúti), Ömmu Hebu og Kristjáni hennar manni, (hann er kallaður Kristján afi af barnabörnunum.). Sólin skein og menn gátu borðað úti.
Þá fórum við á mót í félagsskap sem við erum í að Brautarholti á Skeiðum. Unnur var með okkur og var margt gert fyrir unglinga. Sérstaklega þótti henni gaman að kynnast frænku sinni en sonardóttir Hrefnu, systur Nonna var þar með ömmu sinni og afa, ásamt vinkonu og náði Unnur góðu sambandi við þær.
Þá var Halli sonur Hrefnu ásamt fjölskyldu.
Í vikunni á eftir fékk Nonni góða daga með Söndru og vinkonu hennar Bertu Maju. Þær vildu fara í húsbílnum hérna innanbæjar og lét Nonni það eftir þeim. Nonni verslaði m.a. inn og bauð þeim upp á skyndibita í Smáralindinni.
Um seinustu Helgi fórum við svo á ættarmót Pálsættarinnar að Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Kristján heitinn fyrri maður Siggu er af þeirri ætt og telst því Sigga nú vera hluti ættarinnar. Þar voru Kristján og Birna (fóstursonur og sambýliskona) og var mál manna að mótið hefði verið vel heppnað þó bæði væri kalt og hvasst.
Sandra hefur gist hjá okkur og er hún lögst til hvílu þriðju nóttina í röð þegar þetta er skrifað þegar fyrstu mínútur 4. júlí hafa runnið sitt skeið. Við höfum farið í sund og húsdýragarðinn með hana og bakað hana en svo kallar hún þá aðferð sem hún sækist mjög í að láta strjúka á sér bakið.
Sigga hefur verið rúmlega viku í sumarleyfi. Við ætluðum að vera allt leyfið á flakki en heimsókn fjölskyldu Sigurgeirs setti strik í þann reikning. Nú förum við væntanlega út úr bænum á morgun.
En semsagt elsku vinir og ættingjar Allt gott af okkur. Við óskum ykkur alls hins besta Ykkar vinir og ættingjar Nonni og Sigga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 2. júní 2008
Komin heim í heðardalinn - fyrsta húsbílaferð ársins
Þetta var aldeilis yndisleg ferð sem við fórum um helgina í Sælingsdal.
Það var svolítið basl með fína húsbílinn. Vatnið lak og við gátum ekki notað kranana. Við eigum stóran vatnsdúnk og fylltum hann. Miðstöðin var í lagi þannig að þetta reddaðist.
Við töfðumst svolítið vegna athugunar á vatninu. Nonni ætlaði að laga þetta sjálfur en aðgengið var þannig að það er meiri háttar mál. Betra að láta fagmenn sjá um verkið.
Þá fór ískápurinn. Við fylltum hann af klökum og það hélst kalt í honum í ferðinni.
Við tókum Óla og Iðunni - vinafólk okkar með okkur í húsbílinn. - Karlarnir fram í og konurnar sátu afturí. Við vorum lögð af stað um 11:30 - nægur tími og því ókum við Hvalfjörðin.
Sigga reiddi fram snarl í hádeginu sem við átum milli herskála vestan við hvalstöðina. Síðan tókum við nokkra Kana og héldum sem leið lá í Sælingsdalinn.
GPSinn sagði okkur leiðina og reifst ekki mikið við bílstjórann út af því að hann valdi ekki göngin.
Hluti hópsins var kominn upp eftir þegar við komum. Flestir höfðu þó ekið í halarófu frá Reykjavík, nokkuð sem Nonni þolir ekki.
Þegar Óli og Iðunn voru búin að bóka herbergi og við að koma okkur fyrir gátum við haldið áfram að spila og spjalla.
Rétt fyrir sjö fórum við inn í íþróttahús Laugaskóla. Þar voru dekkuð borð og í miðjunni var pláss til að dansa. Byrjað var á forrétti - reyktur lax og salat ásamt tómatabrauði. Þá var beinlaus hryggjastykki með grænmeti og sósu í aðalrétt. Eftirréttur var súkkulaði - frauðkaka á fallega skreyttum diski með súkkulaði. Allt ákaflega gott.
Sungið var fyrir matinn - stuttar kynningarræður í byrjun. Eftir matinn byrjaði ballið með mars eins og venjulega. Hann var óvenju skrautlegur. Í miðjum marsinum skiptist hersingin upp í karla og konur og leiddust tveir og tveir karlar og tvær og tvær konur. - svolítið sérstakt. Síðan mættust fylkingarnar þannig að par kvenna myndaði hring með pari karla og gengu í hring og síðan fóru konurnar undir hendur karlanna sem mynduðu eins konar hlið fyrir þær og næsta karlapar tók við þeim. Þannig gekk þetta þar til allar konur höfðu gengið í gegnum alla hersingu karla. Tók þá hver karl við sinni konu. Skemmtileg tilbreyting.
Dansinn dunaði - bæði ungir sem gamlir allt frá mestu öldungum niður í börn á brjósti. Þannig er það á sveitarböllunum. Á dansiböllum í bænum á vegum Káts fólks er fólkið að jafnaði flest komið að miðjum aldri eða þar yfir. Allir virtust skemmta sér konunglega og það gerðum við Sigga og Nonni
Í einum hringdansi dansaði Nonni við eina 6 ára. Hún sveif bara í loftinu í orðsins fyllstu merkingu. Það var á svip hennar að sjá að henni leiddist ekki. Í öðru tilfelli dansaði Nonni við unglingsstúlku líklega um eða innan við fermingu. Lagið var tvistlag og hafði hún á orðið að Nonni kynni þetta enda lét hann eins og hann væri líka um fermingu. Hann settist næstu syrpu og var ekki auðvelt að standa upp eftir átökin.
Okkur þykir gott að hætta leik þá hæst hann stendur. Fórum við í húsbílinn vel fyrir miðnætti og spiluðum við Óla og Iðunni fram eftir nóttu.
Á sunnudaginn (daginn eftir ballið) var gott veður - nokkuð skýjað en sá í blámann á milli. Við létum það ekki á okkur fá þó veðrið væri gott heldur spiluðum allan daginn. Fengum okkur snarl og "drekkutíma" á milli og lögðum ekki af stað fyrr en um kl. 18.
Við sungum og sváfum á leiðinni og var svo skemmtilegt að ferðin tók enga stund.
Ætlunin var að fara í Borgarnes og eta þar kvöldverð. Fórum við í N1 sjoppuna sem býður yfirleitt upp á rétt dagsins. Okkur leist vel á það sem var á matseðlinum. Við biðum þar lengi. Enginn virtist hafa áhuga á að afgreiða okkur. Eftir um korters bið spurðum við hvort ekki væri verið að afgreiða. Fengum við hálfgerð ónot í okkur og var haldið áfram að afgreiða aðra. Síðan færðum við okkur að kassanum þar sem var þó einhver að afgreiða og spurðum hvort við gætum fengið rétt dagsins. Svarið var. Þetta er nú eiginlega ekkert nema sósa sem eftir er og kartöflumúsin er næstum því búin. - Við gátum sem sé ekki fengið neitt.
Þá fórum við á Akranes. Eftir nokkra leit með aðstoð síma og GPS fórum við inn í eina sjoppuna. Óli þekkti konu sem rekur hana. Okkur leist öllum á fiskrétt sem þar var i boði og pöntuðum hann. Sjoppan tæmdist - eitt par hafði verið úti í horni og hurfu þau á braut. Glymjandi óþægileg tónlist hafði verið inni þegar við komum og spurðum við hvort við mættum ekki slökkva á henni. Svarið var að starfsfólkið frami ( í eldhúsinu) þyrfti nú að hafa eitthvað að hlusta á. Við vorum einu kúnnarnir og þurftum að hlusta á háværa síbylju á meðan við borðuðum. Dæmigerð íslensk "þjónustulund". Óli dílaði við konuna að velja eitthvað þægilegra. -
Þegar við komum heim til Óla og Iðunnar héldum við áfram að spila fram yfir miðnætti - fjörugt og skemmtilegt - glens og gaman og hlegið mikið. Fyrsta klukkustund nýs dags var liðin þegar Sigga lagðist á koddann - og þurfti að mæta til vinnu eldsnemma daginn eftir. Vel þess virði.
Elsku vinir og ættingjar
Þakka ykkur fyrir að fylgjast með okkur. Yndislegt að fá kveðjur frá ykkur . Hafið þið það alltaf gott.
Nonni og Sigga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 29. maí 2008
Sveitaball um helgina
Nú erum við að hamast að búa húsbílinn fyrir helgarferðina, þá fyrstu þetta vorið. Leiðin liggur í Sælingsdal þar sem Kátt fólk - dansfélagið sem við erum í - slær upp sveitaballi á laugardagskvöldið.
Við reiknum með að verða hjá Óla og Iðunni kl. 10 um morgun laugardagsins og höldum sem leið liggur um hvalfjörð, inn Borgarfjörðinn, upp Bröttubrekku og áfram inn í Sælingsdal.
Við höfum nesti með okkur og getum haft það notalegt með þessu vinafólki okkar á leiðinni.
Við höfum einu sinni áður farið á svona sveitaball með Kátu fólki og var það hin besta skemmtun.
Elsku vinir og ættingjar
Hafið þið það sem best
Ykkar
Nonni og Sigga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 28. maí 2008
Fertugsafmæli grautaskólaútskrftar
Nú eru liðin 40 ár síðan Sigga lauk námi í húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði. Af því tilefni hittust 21 skólasystir frá þessum tíma á Ísafirði.
Sigga tók flug til Ísafjarðar á fimmtudagsmorgun ásamt Möggu og Fjólu.
Lilja vinkona Siggu skaut skjólshúsi yfir Siggu og fór Magga með henni í heimsókn.
Á fimmtudeginum var það göngutúr og heimsóknir. Að lokum almennum vinnudegi fór Magga til Lindu (ein skólasystra) og gisti hjá henni. Sigga gisti hjá Lilju.
Um kvöldið fór Sigga með Lilju og Ella í Edinborgarhúsið á skemmtun með Óskari Péturssyni og Erni Árnasyni. Var það hin besta skemmtun. (Grenjandi hlátur). Eftir skemmtunina ók Elli þeim til Suðureyrar.
Morguninn eftir fór Sigga ásamt Gunnu A til Fjólu (báðar skólasystur). Sú síðarnefnda bjó hjá syni sínum. Fjóla fékk bíl lánaðan og óku þær í morgunkaffi inn í fjörð til Lindu (einnig skólasystir). Þar voru Onna, Didda, Magga, Inga Lára, Linda Erla og Inga Sæm (skólasystur) Siðar bættust aðrar skólasystur við.
Eftir spjall og kaffi gekk Sigga ásamt Gunnu inn á Ísafjörð - klukkutíma labb. Í bænum hittu þær Stínu og Fríðu og fóru aftur til baka með þeim inn í fjörð og borðuðu hádegismat hjá Lindu.
Um þrjú leitið var tekið á móti Magneu út á flugvöll og farið þangað á gistiheimilið -þ.e. gamla elliheimilið. (hefur ekkert með aldur þeirra að gera.)
Með kvöldvélinni á föstudeginum komu svo Maja, Unnur, Beta og Ellen frá Noregi. Nokkur spenna hafði verið um það hvort Ellen næði þeirri vél vegna stutts tíma á milli vélanna þ.e. frá Noregi og síðan vélinni til Ísafjarðar. Þetta hófst með smá brellum. Vélin til Ísafjarðar var tafin um 13 mínútur til að dæmið gengi upp.
Á föstudagskvöldið var etinn Taílenskur matur frá einni slíkri búllu á Ísafirði - sent upp á "elliheimilið". Síðan höfðu þær skemmtun hver af annarri upp á elliheimili um kvöldið.
Á laugardagsmorgun var byrjað á göngutúr eftir morgunverð. Þá var hist í gamla skólanum sem nú er tónlistarskóli og fengu þær að skoða hann.
Þá tvístraðist hópurinn og skoðaði Sigga bæinn. Nokkrar fóru upp sjúkrahúsið gamla með Siggu en það er bókasafn núna.
Um kvöldið var farið í Vigur. Lagt var af stað um kl. 18:30 - siglt í hálfan tíma. Kiddý eiginkona Hafsteins skipstjóra gædaði þær um eyjuna það litla sem mátti labba því varp var á fullu.
Siggi nokkur Gríms var þar að taka heimildarmynd um eyjuna. Skólasysturnar lentu inn í þeirri mynd. Mynd þessi gerir þær væntanlega heimsfrægar. Ráðgert er að sýna hana í Þýskalandi í endaðan júní. Hver veit hvað síðan tekur við.
Eftir að deputera í kvikmynd var farið inn í veitingahúsið í Vigur og etin þar kvöldverður - blómkálssúpa - síðan lambalæri á íslenskan máta með öllu tilheyrandi - þ.m.t. Ora grænar baunir. Þá var kaffi og dýrindis marenge terta.
Um tíu leytið um kvöldið var haldið heim. Sigga fór þá inn í Edinborgarhúsið ásamt nokkrum örðum "stelpum" - beint á barinn (barasta af því það var stúdentsveisla í aðalsalnum.)
Þarna biðu þær eftir hinum sem aldrei komu. Sigga hitti þarna fjöldann allan af fólki sem hún þekkti frá því hún bjó á Ísafirði. Hinar þekktu líka nokkra. Hinar sem ekki komu voru upp á "elliheimilinu" og fór Sigga og þær sem með henni voru þangað laust eftir miðnætti.
Spjallað var fram eftir nóttu og dreypt á einhverju sem ekki skal tíundað.
Á sunnudaginn fór hópurinn að tvístrast. Pakka varð niður og gengið frá herberginu fyrir hádegi. Klukkan fjögur kom Sigga heim og fékk að sjá að Nonni hafði ekki verið algjörlega aðgerðarlaus á meðan. Alltaf nóg að gera í húsinu.
Elsku vinir og ættingjar
Bestu kveðjur
Ykkar vinir og ættingjar
Sigga og Nonni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 18. maí 2008
Miður maí
Um hvítasunnuhelgina fórum við akandi norður í land að vera viðstödd fermingu yngsta barns Leifs bróður Siggu - Það var Sigfús sem nú fermdist. Þegar elsta barn hans fermdist hún Anna, byrjaði Nonni þann sið að taka myndir og skila í bók. Þetta hefur þróast með bættri þjónustu bókagerða erlendis og verður bókin í ár vonandi eins útlítandi og ljósmyndabók úr búð. Nonni halar niður forriti frá bókagerðinni - þar setur hann upp bókina, raðar myndum á blaðsíðurnar og ritar texta. Síðan sendir hann allt saman tilbúið og fær bókina til baka í pósti. Hann hefur ekki skipt áður við þá bókagerð sem hann valdi nú og verður spennandi að vita hvernig útkoman verður.
Þegar við komum Norður var snjókoma alveg niður í byggð og sást vart út úr augum. Hálka á heiðum. Það hlýnaði og var þokkalegast veður meðan við dvöldum fyrir norða. Daginn sem við fórum heim var kominn 16 stig um morguninn og átti eftir að hlýna yfir daginn. Ágætalega afslappað að koma norður. Við skoðuðum þær breytingar sem bræður Siggu og faðir höfðu gert á húsi foreldra hennar vegna minnkaðar hreyfigetu móður hennar (Hermínu) Gólf hafði verið jafnað (það var lægra í þvottahúsi þar sem venjulega er gengið inn í húsið) og einu herberginu á 1. hæð var breytt í baðherbergi svo ekki þyrfti að fara á milli hæða. Þetta var allt frábært. Mjög skemmtileg breyting.
Sigga mákona Siggu var með okkur heim.
Í gær laugardag fórum við austur fyrir fjall á Stokkseyri og skoðuðum þar sýningu Herborgar fyrri konu Nonna. Hún ætlar að vera með amerískt Rakú um helgar milli 2 og 4 fyrir utan gamla frystihúsið sem nú er listamiðstöð. Hér eru myndir af því upplifelsi. Nú í dag (sunnudag) förum við til Grindavíkur, göngum á Þorbjörn, förum í Bláa Lónið og borðum þar á eftir - allt með hópi vina okkar.
Jæja elsku vinir og ættingjar.
Hafið þið það alltaf gott og fyrirgefið hvað sjaldan við látum vita af okkur.
Nonni og Sigga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 12. apríl 2008
Skemmtileg vika
Það hafa verið strjálar færslur í vetur. Þó veturinn hafi verið mjög góður þá hefur hann ekki verið að sama skapi tilbreytingaríkur. Við höfum ekki tíundað nákvæmlega hvað Nonni hefur verið að læra þó það sé margt spennandi eða hvað Sigga hefur verið að gera í vinnunni enda er það mest trúnaðarmál. Nonni er núna að vinna í lokaverkefnum í sumum fögum og hefur lokið öðrum. Allt símatsáfangar. M.a. er hann að gera stuttmynd með hópi þ.e. þremur stúlkum og Halla frænda sínum. Mjög spennandi. Við fórum í Óperuna á miðvikudaginn í boði bankans. Óperan hefur árlega sýningu með nemendum og þeim þannig veitt tækifæri að vinna í raunverulegu umhverfi með stuðningi fagfólks. 70 umsóknir bárust um þær 6-8 aðalsöngvara. Einnig var fjölmennur kór í sýningunni og hljómsveit einnig skipuð afbragðs nemendum. Cosi Fan Tutti eða allar eru þær eins eftir Mozart. Við skemmtum okkur einstaklega vel. Frábær söngur og leikur og uppfærsla. Mjög skemmtileg gamanópera. Þá var haldið upp á afmæli pappa Nonna sem lést fyrir þremur árum. það var haldið hjá Kjartani bróður hans og kom allur ættleggurinn þ.e. þeir sem voru á landinu. Alveg einstakt kvöld. Þá fórum við í matarboð til vinafólks á fimmtudagskvöldið. Æðislega fín fiskisúpa. Þá var seinasta laugardag ball hjá Kátu Fólki einnig alveg frábært. Nú í dag er afmælisboð hjá Knúti sonarsyni Nonna. Hann er tveggja ára í dag. Þá fer Sigga í leikhús með stelpunum hennar Gabríelu og Gabríelu (stjúpdóttur Siggu) að sjá Gosa. Nonni vinnur að stuttmyndagerð á meðan. Við urðum að sleppa fermingarboði að Bakka í Svarvarðardal þar sem systurdóttir Siggu er að ferma elsta son sinn. Maður getur sko ekki verið alls staðar.
Elsku vinir
Allt gott af okkur að frétta eins og sést á þessari upptalningu
Hafið þið það gott elsku vinir og ættingjar
Ykkar Nonni og Sigga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 29. mars 2008
Hækkandi sól
Nú er tími falskra loforða.
Ég kalla það fölsk loforð þegar veðrið lætur eins og vorið sé komið og svo kemur kuldakast og gróðurinn sem trúði loforðinu fær á sig skell svikanna. Ég finn alltaf til með krókusunum sem þurfa að lifa af frost og snjó vegna svikinna loforða. Trén fara að láta kræla á sér og fyrstu laufin eru brún í toppinn vegna þess sama. Sígrænu jurtirnar deyja oft í þessari baráttu frosts og funa.
Það rifjast upp fyrir Nonna þegar hann Auðunn sonur hans var um sex ára og rauk út á stuttbuxum á sumardaginn fyrsta. Það var glaða sólskin og mamma hans kallaði á eftir honum að hann gæti ekki farið svona út. Hann svaraði um hæl: Mamma en það er komið sumar.
Það er annars gott af okkur að frétta. Lífið hefur gengið sinn vanagang. Kristján og Birna búa enn hér í forstofuherberginu og fer lítið fyrir þeim. Þau vinna mikið og stunda æfingar, (bæði tónlistar og líkamsæfingar.) hitta félagana o.þ.l. Á hlaðinu eru þrír Yarisar sem lagt er skipulega eftir því sem menn fara til vinnu og skóla á morgnanna.
Allir áfangar sem Nonni er í eru símatsáfangar þ.e. ekkert lokapróf. Gefið er fyrir verkefni og tímapróf. Nú er komið að lokaverkefnum í nokkrum áföngum og því þyngist róðurinn. Skólinn hættir líka óvenju snemma - líklega vegna sumardagsins fyrsta og er eins og sumir kennarar hafi ekki gert sér grein fyrir því. Sigga er að hekla gardínur í húsbílinn - svona til að auka enn hlýleikann og gera hann persónulegri. Planið er að njóta hans í sumar. Þá hefur hún verið að prjóna bæði dúkkuteppi og barnateppi sem hún hefur gefið.
Semsagt allt gott að frétta af okkur
Hafið þið það alltaf gott elsku vinir og ættingjar
Nonni og Sigga.
Bloggar | Breytt 12.4.2008 kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 23. mars 2008
Göngutúrar og hækkandi sól
Við fórum í klukkutíma göngutúr í Heiðmörk í dag. Við höfum gengið klukkutíma hvern dag yfir páskana og er það mikill viðsnúningur frá því sem var í vetur. Tíðin hefur verið okkar afsökun en í raun hefðum við vel getað dúðað okkur vel og farið út.
Nú er giftingin hans Auðuns afstaðin - tókst afbragðs vel Í gærkvöldi var okkur boðið í mat til Ella og Sigrúnar. Eftir matinn leystum við sunnudagsgátu Moggans og spiluðum fram eftir kvöldi. Afbragðs matur og afbragðs kvöld.
Um daginn bjuggumst við við múrara sem ætlaði að laga skemmd fyrir okkur. Hann hafði ekki sagt hvenær hann komi. Nonni var heima og sofandi í rúminu kl. 8 einn morgun þegar bankað var. Nonni er voðalega þurr í augunum á morgnanna og var vart búin að opna augun þegar hann opnar dyrnar og nær ekki að líta í andlit þess sem er á tröppunum. Ert þú múrarinn sagði hann og heyrir svona lágt kurr í manninum Nær Nonni þá að opna þurr augun nægilega til að sjá milli stýranna í andlit sem hann kannaðist aðeins við.
Á tröppunum stóð Sigurgeir sonur hans sem býr í Ameríku og var sko ekkert væntanlegur. Aðeins í smá skreppi.
Múrarinn kom seinna.
Kær kveðja elsku vinir og ættingjar.
Gleðilega páska
Nonni og Sigga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 10. febrúar 2008
Árshátíð og fleira
Það fór harður diskur í tölvunni hennar Siggu. Ég bið því alla sem þetta lesa að senda okkur upplýsingar tölvupóstföng o.þ.l. svo við getum komið okkur upp tenglalistum aftur.
- Við vorum í gær á árshátíð Káts fólks. Við vorum í skemmtinefndinni og gekk allt vel sem betur fer. Nonni stóð fyrir botnakeppni og var afraksturinn harla litill. Ein i yngri kantinum var þó nægilega sleip í þessari list til að geta tekið við verðlaunum fyrir kveðskapinn. Ella vinkona okkar plataði dóttur sína að koma með nokkrar vinkonur sínar sem æfa saman raddaðan söng og gerðu þær stormandi lukku. Við höfðum unnið að skreytingum lengi fyrir skemmtunina og voru þær nánast gerðar úr engu. Rósir gerðar úr kreppappír, greinar málaðar með silfurlit og skreyttar bleikum borðum, vasar þaktir álpappír með greinum í o.s.fr. Allt tókst þetta mjög vel.
Það hefur hlánað og verið ferðafært utandyra í dag. Dagurinn hefur farið í göngutúr, tiltekt og uppsetningu á nýju tölvunni hennar Siggu.
Við óskum ykkur alls hins besta elsku vinir og ættingjar
Nonni og Sigga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 7. febrúar 2008
Níundi febrúar
Ekkert lát er á ótíðinni. Í dag var færðin þannig að vart var hægt að komast að heiman. Í skólanum hans Nonna vantaði mikinn hluta nemenda. Kennararnir komu sumir, aðrir veikir. Um áramótin höfðu margir á orði að nú hlyti ofankoman að hætta en Nonni sagði að hún breyttist barasta í snjó. Hann spáði að vísu að snjórinn myndi ná upp á glugga. Ofankoman og rokið hefur haldist en það hlánar alltaf það mikið á milli að snjórinn nær ekki nema upp á miðja kálfa.
Þegar við fórum af stað í morgun hafði engin ekið götuna. Nú eru þrír Yarisar í innkeyrslunni því Kristján og Birna eru flutt til okkar í þrjá mánuði á milli íbúða. Sigga ætlaði fyrst og festi hún bílinn. Nonni og Kristján náðu að koma honum út botnlangann og þá var gatan greið í Furugerði þar sem hann festist aftur. Enn er óljóst hvernig það fer. Nonni gat komist að skólanum en ekki upp á planið þar sem hann leggur vanalega. Nóg var af plássinu þrátt fyrir það.
Jæja nú er framundan árshátíð Káts Fólks. Nonni hefur gert fyrri parta sem hann ætlar að leyfa fólkinu að spreyta sig á að botna. Hann hefur sína botna ef ekkert betra kemur. Við erum í skemmtinefnd og þurfum því að vinna að skreytingum og fleira fyrir hátíðina. Slík störf verða aldrei íþyngjandi því þau eru látin ganga á milli og er hvert parið aðeins tvö skipti. Nú er síðari skiptið okkar. Ekki skipta öll pörin í einu þannig að ekki myndast eyða í starfinu.
Kristján og Birna voru að kaupa sér íbúð í Dvergaborgum í Grafarvogi. Þau fá hana afhenta í apríl og eru hjá okkur þangað til. Það er góð tilbreyting.
Það gengur vel bæði í skóla og starfi og allt gott af okkur að frétta.
Elsku vinir - hafið þið það gott.
Nonni og Sigga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 29. janúar 2008
Fyrsti mánuður ársins
Menn spurðu sig fyrir áramót hvort ekki tæki að linna veðurofsanum þegar yfir áramótin kæmi. Það er ekki alla daga ofstopastormur en mjög marga. Nú spáir hann 12 stiga gaddi og þá ætti aðeins að minnka rokið.
Eins og við sögðum ykkur seinast er Nonni á fullu í náminu og líkar alveg ákaflega vel. Hann vildi gjarnan hafa verið svona áhugasamur þegar hann var ungur að berjast í skóla. Það er þó öruggt að allt sem hann gerði annað en að læra hefur nýst einhversstaðar.
Við fórum í fimmtugsafmæli á Mýrarnar um daginn og vorum við svo heppin að það var fært þangað. Þegar við þáðum boðið höfðum við gert fyrirvara um að það þyrfti að vera fært. Jóhanna - (kona Gunnlaugs Ingva - sem er aftur sonur Stellu er systir Sigurgeirs föður Nonna) hélt upp á afmælið sitt. Nú erum við að undirbúa árshátíð hjá Kátu fólki en við erum þar í skemmtinefnd. Sigga er að sauma hringapúða fyrir brúðkaup Auðuns og Súsönnu (sonar Nonna og tengdadóttur tilvonandi) og á milli prjónar hún teppi fyrir öll börnin sem eru að fæðast.
Við keyptum okkur nýja borðstofustóla á útsölu í Tekkhúsinu. Þeir sem eru viðkvæmir í baki m.a. Nonni eiga erfitt með að sitja í þeim sem við eigum nú. Þá getum við hjónin ef til vill setið saman við matarborðið þó Nonni fái skyndilega í bakið þegar fréttir eru í sjónvarpinu og þurfi að setjast fyrir framan það. :-)
Elsku vinir og ættingjar
Hafið þið það gott á þorra og alltaf
Ykkar
Nonni og Sigga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Dagbók Klettássfólksins
Nýjustu færslur
- Áfram með ferðina
- 8-12 júlí
- 4. - 8 júlí
- Byrjun júlí
- Komin heim í heðardalinn - fyrsta húsbílaferð ársins
- Sveitaball um helgina
- Fertugsafmæli grautaskólaútskrftar
- Miður maí
- Skemmtileg vika
- Hækkandi sól
- Göngutúrar og hækkandi sól
- Árshátíð og fleira
- Níundi febrúar
- Fyrsti mánuður ársins
- Gleðilegt ár og þökkum liðið
Tenglar
Tenglar
Bloggvinir okkar.
- Vinir í Portúgal Palli og Þórunn í Portúgal. Palli skrifar.
- Sigurgeir sonur Nonna og fjölskylda.
- Palli og Þórunn í Portúgal Palli og Þórunn í Portúgal. Þórunn skrifar.
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 787
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar