Ferðin

17. júlí - Við erum stödd á tjaldstæðinu Langbrók sem að sjálfsögðu er á Njáluslóðum í Fljótshlíðinni.

við lögðum af stað í sumarferð um landið í gærkvöldi um kl. 18. Við höfðum þá komið við í verslunum og keypt það sem vantaði að okkar mati upp á fullan búnað til ferðarinnar. Við ókum í einni lotu hingað, komum okkur fyrir og borðuðum kvöldverð um fyrir kl. átta. Eftir að hafa gengið frá eftir matinn tókum við upp stafaspil sem er í því fólgið að kasta upp stafateningum og reyna að mynda orð þvers og kruss úr stöfunum sem upp koma. hver stafur hefur ákveðið gildi og er mikilvægt að þeir stafir sem hafa hátt gildi nýtist bæði lárétt og lóðrétt þ.e. séu tvítaldir.

Eftir nokkur spil höfðum við reynt nægilega á heilasellurnar. Við keppum ekki í raun í þessu því það sem situr hjá hjálpar venjulega hinu að finna lausnir sem gefa mikið. Þeir stafir sem nýtast ekki í neitt orð dragast frá. Því er möguleik að koma út í mínus. - Alla vega fræðilega. Við vorum á bilinu 70-100 hverju kasti og voru það aðeins ásar þ.e. teningar með gildið einn (lægst) sem urðu eftir hjá okkur.

Í dag vöknuðum við snemma og vorum farin út að hjóla rétt rúmlega átta. Eftir þriggja kortera hjólatúr inn Fljótshlíðina tókum við út stóla og borð, breiddum ábreiðu á jörðina og sleiktum sólskinið.

Veðurspáin er góð fyrir Austurland á Fimmtudag. Það getur þokað á Suðausturlandi í dag og næstu nótt. Við verðum að fara í gegnum þetta til að komast í sólina.

---------------

*Sama dag um kvöldið

Nú erum við komin í Skaftafell. Veðurspáin sagði að það yrði dumbungur Suð-Austurlandi og við ætluðum austur þar sem spáð var besta veðrinu. Þegar við komum að Skaftafelli var alls staðar skýjað nema þar. Það er algengt að jökullinn hreinsi loftið einmitt á þeim stað. Við erum búinn að spila svolítið og erum að fara að horfa á video.

Frá seinustu færslu hefur það á daga okkar drifið að við lögðum af stað af seinasta tjaldstæði eftir langt spjall við hjón sem einnig voru á Hobby bíl. karlinn er trésmiður sem hefur rekið verktakafyrirtæki en er hættur flestu slíku. Bílnúmer þeirra er LG850. Eftir hádegið fórum við í sund og héldum síðan sem leið lág austur. Við höfum miða upp á það að geta sótt Moggann í sölustöðum hans hvar sem er á landinu. Stoppuðum við í Hlíðarenda og hittum þar Kára, Guðrúnu, Sigfús og syni þess síðastnefnda Kára og Bjarka. Eftir spjall við þau og mogga laus fórum við til Víkur þar sem mogginn fékkst og olía á bílinn. 25 lítrar eftir rúmlega 200 km. Í Vík hittum við Ágústu Stefánsdóttur, brúna og sællega. Hún spurði Nonna á hvaða leið við værum og sagði hann að við værum að elta sólina austur. Ég er einmitt að fara þangað sagði hún en hún var gæd í ferð með útlendingum.

Það var leiðinlegt að sjá ekki Lómagnúp í öllu sínu veldi og ekki sáum við til jökuls heldur vegna skýja. Það ýrði aðeins úr himninum á leiðinni en vart var hægt að kalla það rigningu. En eins og áður sagði birti yfir öllu þegar við komum í Skaftafell. Hér er 11 stiga hiti, sést aðeins til sólar þó dimmt sé þegar fjær dregur frá jöklinum.

Meira síðar.

------

Morgun fimmtudags 19. júlí.

Nonni hafði ýmsar áhyggjur áður en við lögðum af stað, Við höfðum aldrei farið svona ferð og langt síðan við höfðum farið í útilegu. Bíllinn reynist afbragðs vel og okkur líður eins og heima hjá okkur eftir að við höfðum aðlagað okkur að því að hlutirnir hafa sína staði hér.

Aðfaranótt miðvikudagsins gistum við í Skaftafelli eins og áður sagði. Miðvikudagurinn var bjartur þó bólstraský hafi skyggt á sól öðru hverju þá hurfu þau jafn harðan. Við nutum dvalarinnar þar fram eftir degi, sleiktum sólina og settum upp skjól og dúk á jörðina. Drógum fram legustóla og fækkuðum fötum. Þá fórum við í göngutúr upp að Svartafossi, náðum í Moggann í miðstöðina. Um þrjú leitið fórum við að undirbúa brottför og fórum um hálftíma síðar. Þá var haldið á Höfn og flýttum við ferðinni frekar til að ná í verslun á Höfn. Okkur þótti það snyrtilegt pláss en ákváðum að halda aðeins lengra í áttina til sólarinnar sem átti að vera á N-Austurlandi í dag þegar þetta er skrifað.

Það var lágskýjað á leiðinni austan við Höfn. Fjallatopparnir sáust ekki. Við stoppuðum í Berufirði, fórum út af veginum þar sem merkt var nestisstaður við Fossá. Í stað þess að leggja við borðið sem einkennir slíka staði fórum við aðeins lengra eftir vegaslóða og lögðum bílnum þar við enda vegarins þar sem hann var nokkuð láréttur,elduðum - leystum sudokur og krossgátur og lögðumst snemma til rekkju.

Nú erum við búin að ganga frá öllu, borða morgunverð og erum að leggja af stað út firðina fyrir norðan.

Síðdegis 19. júlí.

Eins og segir hér að ofan þá ætluðum við firðina til Egilsstaða. Þegar komið var að vegamótum í Breiðdal þá benti skiltið til Egilstaða upp Breiðdalsheiðina og Nonni hafði ekki fyrir því að skoða kortið. Ef við hefðum séð það þá hefðum við séð að um heiðina liggur ekki malbykaður vegur og hún er bæði brött og erfið yfirferðar - engu síður en Öxi sem við vorum að losna við. En semsagt fjögur hjól undir bílnum og áfram skrölti hann yfir heiðina og til Egilsstaða. Þar var eðliega farið beint inn á þvottaplan og hreinsað mesta rykið af og síðan í Bónus. Við töluðum við tvenn hjón í húsbílum- Önnur höfðum við hitt í Langbrók og hin töluðum við við ´fyrsta skipti. Við borðuðum á bílastæðinu fyrir utan tjaldstæðið á Egilstöðum í steikjandi hita. Þá var haldið inn í Hallormstaðaskóg. Þar spjölluðum við við fólk frá Bolungarvík. Við hjóluðum um skóginn, sleiktum sólskinið og slöppuðum af.

----

Um kvöldið þann 19. spiluðum við svolítið áður en við gengum snemma til rekju.

20. júlí.

Við förum snemma í koju og vöknum snemma. Það var skýjað fram yfir hádegi þegar birta tók í suðri fyrst og síðan færði blíðan sig yfir til okkar. Morguninn notuðum við til að losa og byrgja okkur upp. Nonni fær það virðulega hlutverk að sjá um kamarhreinsun en við hjálpuðumst við að kaupa inn. Farið var niður á Egilstaði, byrjað í Húsasmiðjunni og þar keyptum við slöngu og tengi til að geta sett á vatn. Það var frekar ógeðslegt að okkar mati að vatn til að setja á húsbíla er við hliðina á kamarhreinsistað. Við völdum frekar að fara á tjaldstæðið með okkar eigin slöngu og fjarri öllum kömrum.

Þá var keyptur inn matur m.a. tilbúnir réttir fyrir danska kúrinn. Við skiptum einum skammti í tvennt og bættum við 300 gr. af grænmeti. Eftir það fórum við í sund, lágum barasta í nudd potti um stund og héldum síðan á tjaldstæðið í skóginum. Við byrjuðum á því að setja vatn á með nýju græjunum og fórum síðan á básinn okkar og elduðum okkur það sem ofan greinir. Þó hitinn væri næstum óbærilegur, næstum 20 stig þá sleikti Sigga sólina meðan Nonni fékk sér síestu eftir matinn. Um þrjú leitið fórum við í klukkutíma hjólatúr - Eftir rækilega hvíld og stórþvott var komið að mat. Enn er sólin steikjandi heit þó gola geri dvöl útivið bærilegri.

Eftir matinn fórum við í Krikket og unnum til skiptist. Nú er klukkan orðin níu að kvöldi. Sólin byrjuð að lækka á lofti og Nonni að grúska í GPS forriti meðan Sigga tekur inn þvottinn og hengir föt á öll stólbök. Þau eru næstum því þurr og verða skáphæf í fyrramálið. Á meðan sötrum við úr sitt hvorum tebollanum.

21. júlí

Það var skýjað þegar við vöknuðum. Skyldi hann brotna upp. Nonni fylgdist með skýjunum. Sjáðu þetta dökka ský með dökka botninum. Það er einhverskonar frontur sagði Nonni spekingslega. (Þekking úr sviffluginu) Ef til vill lætur hann undan um hádegi. Hann lét ekkert undan og dökki botninn þýddi ekkert nema rigningu sem kom rétt fyrir hádegi. Við settum stóla og borð undir bílinn og hann fór barasta að rigna meira. Sólarglæta í fjarska hvarf. Við tókum okkur upp eftir hádegismat. Versluðum á Egilsstöðum. Þar hittum við Nönnu og Einar þegar við fórum inn í N1 til að sækja Moggann. Þau komu til okkar í bílinn í smá spjall og kaffi. Eftir það fórum við í sund. Þegar við vorum komin í heita pottinn byrjaði Sigga að heilsa fólki á báða bóga. Kári frændi sem bjó á Ísafirði, ( Nollari) útskírð Sigga og kona hans Anna. Einnig voru þarna Rúnar frá Dalvík og Hafdís kona hans. Þú þekkir hann sagð Sigga við Nonna sem þóttist þekkja en mundi ekki neitt. Ekki gat hann játað það að hann myndi ekkert eftir Rúnari. Nonna sýndist á svipnum á Rúnari að minni hans væri ekkert betra. Meðan Sigga var önnum kafinn í ættfræðinni læddist Nonni upp úr allt of heitum pottinum fyrir langa samræður og sólaði sig. (Sólin hlaut að hafa áhrif í gegnum skýin). Nonni hafði hitt gamlan reddara úr Hveragerði, Jón Helga sem sagðist hafa verið edrú í tvö ár 74 ára gamall. Hann geislaði jafnt og venjulega edrú jafnt sem ekki. Ný kominn úr þriggja vikna ferð til Azserbeijan og fleiri landa. Eftir sundið lögðum við af stað um firðina suður í leit að sól. Nú er dagur að kvöldi og höfum við lagt utan vegar á norðurströnd Berufjarðar rétt austan við botninn í þoku og 10 stiga hita.

 

 

 

22. júlí

Þegar við vöknuðum var lágskýjað og jafnvel þoka. Við ákváðum að taka því rólega fram yfir veðurfréttir kl. 10. Það virtist ekki von á betra veðri annars staðar. Við héldum til baka sömu leið og við komum um firðina. Við dóluðum rólega. Nonni tók nokkrar myndir af skrúðinum í minni Fáskrúðsfjarðar, myndir af gömlum húsum og gulum vita. Áður en við lögðum af stað úr Berufirðinum hafði Nonni reynta að taka myndir af seinustu leyfum af þoku í fjöllunum. Þegar við komum á Reyðarfjörð beygðum við af leið inn í bæinn. Við skoðuðum tjaldstæðið og féllum við ekkert fyrir því. Við tókum niður hjólin og hjóluðum í gegnum bæinn og til baka, um fimm kílómetra leið. Sáum við að á tveimur bensínstöðvum var fín aðstæða til að taka vatn þ.e. góðir kranar sem seta mátti græjurnar á slöngunni upp á. Fyrir á planinu sem við völdum var smárúta innréttuð sem húsbíll og eigandinn að þvo. Aftan á bílnum var málað kort af suður Evrópu. Ætli það hafi ekki verð draumur þessa þýska fólks að vera í hitanum frekar en hér. Ef til vill fara þau þangað þegar kólna fer í N- Evrópu. Á planið kom drengur sem spurði mikið um bílinn og fannst hann flottur. Hann virtist vera um 10 11 ára en svolítið seinþroska. Hann spurði hvort lengra væri til Garðabæjar en Akureyrar. Þegar Nonni hafði tekið saman slönguna þá spurði strákurinn hvað þetta væri og tók hlut upp af planinu. Það var klemman á endanum af slöngunni. Nonni þakkaði honum mikið fyrir. Við kvöddum og fórum út fyrir bæinn, lögðum á plani sem hafði verið gert út í móa utan við bæinn, borðuðum og héldum síðan í átt til Egilsstaða. Það hafði verið nokkur gola niður á fjörðunum og var það líka þegar við komum upp á Egilsstað. Þar var sól og tréin skýldu fyrir golunni. Við ákváðum að vera þar á tjáldstæðinu. Eftir að hafa komið okkur fyrir og fengið okkur ávexti í AB-mjólk hjóluðum við í sund. Eftir góða stund í heita pottinum og smá sólbað hjóluðum við til baka. Nú voru samtals hjólatúrar orðnir næstum 10 km. þennna dag sem okkur þykir hæfilegt í byrjun. Við heilsuðum aðeins upp á Rúnar og Hafdísi frá Dalvík sem voru í næstu tjaldröð við okkur á tjaldstæðinu og fórum síðan að huga að kvöldmat. Nonni fór að basla í að finna rásir á sjónvarpinu en það var sama hvað hann reyndi ekki fannst nema dauft merki um að rás væri á staðnum, hvorki mynd né hljóð. Hann hafði brasað lengi í þessu seinasta kvöld og bjóst við að merkið væri örugglega nægjanlega sterkt hér á Egilstöðum. Það var sama hvað hann reyndi, ekkert nothæft merki. Loks eftir að hafa reynt allt sem hann gat hugsað sér leit hann yfir tengingar við loftnetið en þær voru á botninum á klæðaskápnum. Þær voru í sundur. Ekki furða þótt lítið sæist. Eftir að hafa lagað þetta náðist sjónvarpið. Þá voru fréttir og veðurfréttir búnar og dagskrá ríkissjónvarpsins ekki spennandi. Annað var ekki í boði. Á meðan hafði Sigga tryllað fram mat. Við snæddum og ákváðum að horfa á einn mynddisk - myndin hét snjókakan - mjög athyglisverð mynd um morðingja sem kynnist innhverfri konu og þarf að vinna með henni um tíma.

 

Nú er 23. júlí runninn upp og góða veðrið á förum hér á austan verðu landinu. Þá er að tía sig af stað. Okkur leist betur á veðrið á Norðurlandi og stefndum þangað. Fyrst var að versla, ná i moggann. Áður en við lögðum af stað hittum við fjölskyldu Önnu heitinnar móðursystur Siggu og fjölskyldur þeirra en þau voru á tjaldstæðinu á Egilstöðum. Við lögðum síðan af stað eftir hádegi þegar við vorum búin að borða og stefndum sem leið lá að Myvatni. Það var ágætis veður en skýjað á leiðinni. Við stoppuðum lítið á leiðinni því dagleiðin átti að vera löng. Þegar að mývatni kom veltum við því fyrir okkur að gista þar. Við fórum í jarðböðin og þar hittum við Svöfu og Bjössa frá Ólafsfirði. Þegar við komum út var algjört skýfall og gerði það útslagið með það að fara lengra. Það hætti að rigna þegar við nálguðumst vatnið og var mjög fallegt við Mývatn. Nú í ár mun vatnið vera búið að ná sér eftir margra ára kísiltöku og er mý þar hámarki. Ekki jók það áhuga Siggu á að vera þar. Við stoppuðum til að taka myndir en héldum annars áfram. Við völdum okkur heppilegan blett til að drekka síðdegiskaffi og fá okkur AB mjólk með ávöxtum. Það var á hæð ofan við mývatn en engu að síður var þétt ský af mýi þar. Það var komið mjög fallegt veður ekki alveg heiðskýrt en skýin sköpuðu oft skemmtilega birtu. Við stoppuðum næst við Goðafoss og tókum þar myndir og héldum svo áfram sem leið lá í gegnum Akureyri til Dalvíkur. Rétt áður en við komum að Dalvík fengum við okkur kvöldverð og fórum svo á æskuheimili Siggu þar sem foreldrar hennar búa enn. Við lögðum bílnum á auða lóð handan götunar og sváfum þar um nóttina.

24. júlí.

Það var fallegur dagur á Dalvík. Að vísu var stinnings kaldi þegar innlögnin byrjaði og var ekki langt liðið á morguninn þegar hún hófst. Við hjóluðum engu að síður inn Svarfaðardalinn að bænum Tjörn og til baka samtals um 12 km. Það var svo sem auðvelt þegar við hjóluðum inn dalinn. Á bakaleiðinni var rokið í fangið og þar að auki nokkuð mishæðótt. Við vorum samt ekkert eftir okkur eftir þetta - við vorum kominn í þokkalegt form. Eftir matinn fórum við svo í sund. Við hittum að sjálfsögðu ættingja Siggu, systkini hennar, maka og börn. Þá heilsaði hún ýmsu fólki sem við hittum eins og gengur þegar hún kemur á æskustöðvarnar.

Um kvöldið bauð Hermína okkur í grillaðan silung sem var afbragðs góður og hentaði vel mataræði okkar. Við bættum við okkar skammti af káli. Um kvöldið fórum við í heimsókn á systkinalínuna. Fyrst til Leifs og Steinunnar en Hörður og Leifur voru á fullu að tyrfa lóðina hjá Leif. Þá fórum við til Ásu og Gunnþórs en Gunnþór var á fullu að fella miklar aspir á lóðinni og búta þær niður í hæfilega meðfærilega kubba. Síðan enduðum við hjá Siggu og Val. Sigga kona Vals bauð okkur í hádegisverð daginn eftir.

25. Nú var spáð norðanátt með versnandi veðri fyrir norðan. Við tíuðum okkur til ferðar. Við fengum fyrst dýrindis hádegismat hjá Siggu og Val. Sér sniðinn að danska kúrnum. (með smá hrásykri að vísu. ) Eftir dýrindis máltíð með kjúklingi og ís í eftirmat framleiddum af vigtarráðgjöfunum héldum við sem leið lá yfir heiðar. Áður en við fórum frá Dalvík fréttum við um tvo nýja fjölskyldumeðlimi í stórfjölskyldu Siggu. Gunnþór Gunnþórsson systursonur Siggu átti stúlku sem fæddist um kvöldið 24 og á svipuðum tíma fæddi Kristín dóttir Kára föðurbróður Siggu strák. Stúlkan hans Gunnþórs var nefnd strax Ása Eyfjörð. Við fengum ágætis ferðaveður. Við höfðum ekki borðað nóg grænmeti hjá Siggu og elduðum okkur viðbót og fengum okkur hana með venjulegum miðdegisskammti af AB-mjólk og ávöxtum þegar við stoppuðum í Skagafirðinum hjá Víðimyrarkirkju. Eftir máltíðina héldum við áfram sem leið lá yfir heiðar og stoppuðum næst í Norðurárdalnum efst þar sem við snæddum okkur kvöldmat. Við ókum yfir brú efst í Norðurárdal og héldum eftir vegi að bæjum sunnnan árinnar og lögðum utan vegar og ætluðum að gista þar. Eftir matinn þá snerist okkur hugur. Eftir smá kvöldafslappelsi þar héldum við áfram alla leið niður í Borgarnes. Við ætluðum á gamla tjaldstæðið þar en sáum þar miklar byggingarframkvæmdir. Rétt áður en við komum inn í þéttustu bygðina höfðum við séð annað tjaldstæði en ekk farið þangað af þvi við sáum ekki rafmagn þar. En hingað vorum við komin og gerðum það okkur að góðu.

26. júlí.

Eftir venjubundinn morgunmat og skoðun á tjaldstæðinu sem við höfðum gist um nóttina ókum við út að vestasta hluta Borgarness sem er Brákarey. Hún mun skírð eftir ambátt sem ól Egil Skallagrímsson upp., Við gengum stóran hring um bæinn og enduðum göngu okkar með því að banka upp hjá Jóhönnu og Gunnlaugi Ingva Sigfússyni, Halldórssonar tónskálds og málara með meiru. Móðir Gunnlaugs er systir föður Nonna.. Eftir stutt spjall við Jóhönnu var Gunnlaugur vakinn. Klukkan var að vísu að nálgast hádegi en hann afsakaði sig með því að bæði væri hann frekar morgunsvæfur og líka hitt að hann hafi þurft að bera út moggann fyrir allar aldir og lagt sig eftir það. Það var komið hádegi þegar við fórum niður á næstu hæð í sama húsi en þar býr bekkjasystir Siggu úr húsmæðraskóla en hún heitir líka Jóhanna og maður hennar heitir Jón. Við áttum góða stund með þeim og var talað um lífsins glímu. Það var orðið áliðið dags þegar við fórum þaðan, löbbuðum niður í Brákarey ókum niður á bryggju og elduðum okkur kálmeti í hádegisverð. Talið hjá Jóhönnu hinni síðari hafði verið m.a. um húsbíl og komu þau óvænt í heimsókn að skoða bílinn þegar við vorum rétt að ljúka hádegisverðinu. Eftir þetta fórum við af stað úr Borgarnesi austur norðurárdalinn að tjaldstæði að Hraunsnefi undir Hraunsnefsöxl. Þar var fyrir hjólhýsi sem Halli sonur Hrefnu systur nonna á. Þau höfðu skroppið í bæinn en komu um kvöldið á tjaldstæðið. Von var á fleiri skyldmennum Nonna daginn eftir. Við spiluðum við Sirry og Nonna þeirra Halla Yatzy fram eftir nóttu.

27. júlí.

Við notuðum morguninn til að uppgötva dásemdir staðarins að Hraunsnefi um morguninn. Þarna var heitir pottar eða að minnsta kosti volgir. Heitar sturtur og snyrtileg salerni. Við gefum þessum stað ágæta einkunn. Tjaldað er á stöllum þannig að ekki þarf að tjalda í halla og stallarnir haldast þurrir. Þegar líða tók á daginn fórum við í göngutúr upp fjallið. Þegar við höfðum gengið nokkur hundruð metra leið þá hringdi Habba systir Nonna og sagðist vera við Borgarnes. Snerum við þá við og gengum í öfuga átt út á veginn og á móti Höbbu. Hún vinkaði okkur þagar hún fór fram hjá enda Helgi sonur hennar sofandi aftur í og ekkert pláss fyrir göngulúin okkur.

Við aðstoðuðum Höbbu við að fortjaldið á tjaldvagninum hennar og síðan var spjall og huggulegheit. Um kvöldið komu svo Hrefna og Guðjón.

28. Nú fóru fleiri að tínast á tjaldstæðið. Um hádegið voru flestir komnir nema Auðunn sonur Nonna. Allir krakkar systkina hans og börn. Slegið var upp grillveislu - Grillaðir kjúklingar í brauði og káli fyrir þá sem það vildu. Það lá kuldastrengur frá austri niður Norðurárdalinn og færði Guðjón bíl sinn þannig að hann ásamt tjaldvagni Höbbu veittu skjól. Allir stólar á staðnum voru settir á milli þessa skjólveggjar og húsbílsins okkar og sólin vermdi nægjanlega til þess að þetta var allt að því frábært. Þá fóru menn að spila kubb. Nonni hafði lært reglurnar skömmu áður og reyndi að kenna þær þarna á staðnum. Menn vildu frekar nota sínar eigin reglur og slóst Nonni í leikinn. Áður en hann hófst höfðu þau Auðunn og Súsanna komið með Knút sem vakti mikla lukku hjá a.m.k. sumum á staðnum þar sem hann notaði nýlærða tækni til gangs en jafnvægisskinið og balansin var ekki betri en það að gott var að hafa mjúka bleyju á rassinum. Um kvöldið komu Gunnlaugur og Jóhanna. Það kólnaði og við settum fjölda stóla inn í fortjáld við hjólhýsi Halla og spjölluðum fram eftir kvöldi. Gústi maður Hrefnu systur Gunnlaugs kom og afsakaði konu sína - hún væri lasin.

Nonni sonur Halla spurði hvort hann mætti horfa á sjónvarpið hjá okkur en Sigga var inn í bíl að fylgjast með mynd. Nonni sagði að hún væri áreiðanlega fegin þar sem hún væri alein í bílnum. Þegar hann bankað síðan upp hjá Siggu bauð hann henni félagsskap. Margir af yngri kynslóðinni fóru í bæinn en Halli, Snorri, og fjölskyldur, Hrefna og Guðjón, Kjartan og Dísa og svo við gistum um nóttin .

29.

Nú þurftu menn að tía sig í bæinn. Allir nema við. Þegar við vöknuðum var allra besta veður en spáð var rigningu. Við notuðum morguninn til að sóla okkur eftir að Nonni hafð farið í bað og Sigga hafði útbúið morgunmat á meðan. Eftir hádegismat var orðið skýjað og við fórum í gönguferð upp fjallshlíðinu þar til mönnum fannst nóg komið - amk þeir sem óvanir voru. Þegar við vorum komin af fjallinu féllu fyrstu droparnir. Tekið var saman það sem eftir var og menn fóru að koma sér heim. Við ákváðum að fara norður þar sem meiri líkur voru á þurru veðri á næstunni. Að vísu var besta spáin á norð austurlandi og of langt þangað fyrir tvo daga en e.t.v. var nægjanlegt að fara norður fyrir heiðina. Við ókum sem leið lá að Húnavöllum. Þegar þangað var komið héldum við áfram og fórum hring sem náði alla leið að Blönduósi og síðan til baka að Húnavöllum. Staðurinn virtist huggulegur og engir á tjaldastæðinu. Við höfðum staðinn fyrir okkur. Þegar við vorum búin að borða koma að vísu annað í ljós. Einhverjr bættust við. En það var sama. Það rigndi smá en það gerði dvölin í bílnum bara huggulegri. Það er allt í lagi þó það rigni á nóttinni og kvöldinn. Við byrjuðum aðeins á sunnudagskrossgátunni í moggonum, reyndum að komast í sund en vorum aðeins of sein, rituðum dagbók seinustu daga og fórum svo að sofa

30. júlí.

Við vöknuðum upp á Húnavöllum snemma eins og venjulega. Tókum því rólega fram eftir morgni. Fórum á Blöndós að versla. Eftir það fengum við okkur hádegisverð. Við fórum í sund eftir matinn. Sundið átti ekki að opna fyrr en kl. tvö en við sáum gesti í sundi og spurðum hvort við mættum ekki eins fara ofan í. Það var leyft og lágum við í ekki brennandi heitum potti og syntum aðeins nokkur tök. Eftir sundið fengum við okkur hressingu og hjóluðum meðfram Svínavatni. Eftir það slöppuðum við af elduðum kvöldmat og horfðum á sjónvarpð um kvöldið.

31.

Við fengum okkur morgunmat - biðum eftir veðurfréttum sem staðfestu að veðurblíðan fyrir norðan var búin. Nú var að vísu hvergi spáð sól og ekki einu sinni algjörlega þurru en vesturland var skásti kosturinn. Við ókum að Hreðavatni þar sem við borðuðum með útsýn yfir vatnið. Síða fórum við í Borgarnes, fengum okkur það sem vantaði og héldum síðan að Kverná á Snæfellsnesi. Ekki var það efnilegt. Staðurinn leit ekki vel út og bóndinn á bænum sagði að sá sem hugsaði um tjaldstæðið hefði rokið í burtu án þess að tala við hann. Við hringdum í útilegukortið til þess að afla upplýsinga. Sú sem sér um það hringdi í umsjónamanninn og sagði hann að við mættum tjalda - hann hefði skroppið frá. Frakkar voru á staðnum og reyndi Nonni að tala við þá án mikils árangurs. Pappírslaust var á salerni en þar var heitt vatn og óstifluð klósett og sturta. Það var tengi fyrir rafmagn. Við lögðum bílnum og hvíldum okkur fram að kvöldmat. Eftir það hlustuðum við á í útvarpi og sjónvarpi og veðurfréttir sem boðuð gott hér fram á föstudag þegar hvöss lægð gengur yfir um morguninn með a.m.k. 25 metrum á sekúndu á suðurlandi. Við ætluðum út um kvöldið en þegar þetta er ritað er svo mikið rok að við höldum okkur inni.

1. ágúst.

Það var ekki mikið við að vera á Kverná. Við lögðum því af stað þaðan upp úr kl. 9 og héldum sem leið lá hringferð um Snæfellsnes. Við ókum í gegnum þorpin á norðan verðu nesinu og veðrið lofaði góðu. Heiðskírt og nokkur gola. Við fylltum bílinn af vatni og framkvæmdu reglulega kamarhreinsun á Ólafsvík. Það gleymdist að ná þar í Moggann og héldum við áfram út nesið. Nonni byrjaði að taka myndir fljótlega á leiðinn. Hann hefur ekki tekið mikið af myndum í ferðinni öfugt við það sem hann ætlaði sér. Það var eins og opnaðist fyrir flóðgátt, einhverja myndatökustíflu sem hafði verið. Hugsanlega hefur hann ekki hrifist eins af umhverfinu eins og á Snæfellsnesi. Þetta byrjaði rólega strax á norðanverðu nesinu. Þegar við vorum komin sunnan megin á nesið þræddum við alls kyns útkróka og tókum fjölda mynda. Ljósmyndun gefur svona ferð svo óhemju mikið. Maður einfaldlega skoðar meira í leit að myndefni. Upphaflega var ætlunin einmitt að gera þetta. Þræða króka og taka myndir. Ef til vill erum við rétt að komast í gírinn. Myndirnar tala sínu máli um það hvað við skoðuðum og hvernig ferðin gekk. Þar eru allar tímasetningar. Við skoðuðum m.a. Bárðarból, fórum niður á Malarrif þar sem við skoðuðum umhverfið og borðuðum hádegismat. Þá tókum við $myndir af Lóndröngum og jöklinum svo og af Stapafelli frá öllum hliðum. Siðan fórum við niður í þorpið Arnarstapa. Þar skoðuðum við m.a. handverksverslun heimamanna. Þá stoppuðum við hjá Rauðfeldargjá í Breiðuvík og ókum niður að Búðum. Á leiðinni stöðvuðum við og tókum myndir af litríkum fjöllunum en höfðum ekki fyrir því að skrifa niður nöfn á bæjunum. Þá tókum við myndir í Axlahyrnu og svo fjölmargar á búðum. Þá fannst Nonna nóg komið af myndatökum og héldum við sem leið lá í Borgarnes. Við stoppuðum á Vegamótum og náðum í Moggann. Þegar í Borgarnes var komið var klukkan rétt um fjögur. Nonni var orðinn þreyttur á setum í bílnum og fórum við fyrst í sund. Síðan fórum við í Samkaup að versla þar sem við hittum Jóhönnu og Gumma. Nonni stakk upp á að fara í Svínadalinn á tjaldstæði sem kísilmálmverksmiðjan rekur. Þar komum við okkur fyrir og var það mun skárra en seinasta tjaldstæði sem við gistum á. Það tilheyrði þeim tjaldstæðum sem við greiddum fyrir með útilegukortinu. Við vorum komin þangað vel fyrir kvöldmat. Tókum því rólega í fyrstu og elduðum okkur svo svínalundir með miklu grænmeti að hætti vigtarráðgjafanna. Við náðum ekki sjónvarpi. Nonni vann í myndum um kvöldið og Sigga prjónaði. Þetta hafði verið einn besti dagur ferðarinnar - sól og hlýja en svolítill vindur. Með því að leggja bílnum i skjóli við skjólbelti var hér besta veður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæru vinir, það var gaman að lesa ferðasöguna ykkar, þetta hefur verið vel heppnuð ferð og viðburðarík. Mikið hlakka ég til að sjá myndirnar, þær gera söguna örugglega ljóslifandi.

Kær kveðja frá vinum ykkar í Portúgal, Þórunni og Palla

Þórunn (IP-tala skráð) 4.8.2007 kl. 10:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Dagbók Klettássfólksins

Þetta er dagbók Jóns Sigurgeirssonar og Sigríðar Harðardóttur Klettási í Garðabæ. Henni er haldið út vegna fjölmargra vina og ættingja sem eru fjarri okkur í vegalengdum mælt.

Höfundur

Sigríður Harðardóttir
Sigríður Harðardóttir

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG 3267 edited 1
  • 20080524 IMG 2486
  • 20080524 IMG 2512
  • 20080524 IMG 2553
  • 20080524 IMG 2553

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 787

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband