Miðvikudagur, 17. október 2007
Allt of síðbúið blogg eina ferðina enn.
Við enduðum frásögnin í lok júlí en þá komum við heim úr ferðalagi á húsbílnum. Eftir hvíld eina helgi þ.e. verslunarmannahelgina fórum við aftur af stað. Fiskidagurinn mikli var framundan og ekki dugði annað en að koma i byrjun vikunnar til að fá stæði fyrir bílinn.
Það var orðið þó nokkuð þétt húsbíla og hjólhýsaborg á tjaldstæðinu þegar við komum. Rafmagnstengi voru af skornum skammti. Við fundum stað í jaðri hótelslóðarinnar og náðum að tengja okkur og borga upp í sundlaug. Við áttum eftir að þakka fyrir að vera á þessum stað en ekki innar á tjaldstæðinu því allar leiðir áttu eftir að teppast. það var allt stillt í vikunni. Allt fullt af fyrirhyggjusömu miðaldra fólki og eldra og hægt að fara að sofa um miðnætti. Þarna voru við hlið okkar fyrrverandi bóndi af héraði og núverandi póstverktaki. Þá hittum við hjón sem Sigga kynntist á sínum tíma á ísafirði og við höfum haldið tengslum við Elínu og Birgi en Birgir var útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði. Fórum við m.a. með þeim til Hríseyjar. lentum við þar á tali við stórleikarann Árna Tryggvason. Eftir langt spjall um ættir og fleira sem Nonni þekkir ekki haus né sporð á reyndi hann að snúa ofan af þessu með því að spyrja hvað væri markvert að sjá þarna í Hrísey. Árni sagið að ekki væri mikil ánægja af því að sjá hlutina ef saga þeirra fylgdi ekki og bauðst til þess að gerast leiðsögumaður. Eftir langar lýsingar á sögu hins ýmsustu staða fengum við okkur kaffi og með því áður en við héldum til skips.
Ekki heimsækjum við Dalvíkina nema fá hæfilegan skammt af heimboðum frá foreldrum Siggu og systkinum. Svo kom fiskidagurinn með sínum skemmtunum og fjölda ljósmynda og endaði hann með brekkusöng í smá úða. Ekki truflaði það stórkostlega flugeldasýningu enda hefðbundið að það stytti upp um stund við slíkar aðstæður.
Á sunnudaginn hitti Sigga bekkjarsystkini sín úr barnaskóla og fórum við því seint heim þann dag. Gistum við eina nótt á tjaldstæðinu á Blönduósi. Þar var Hnífsdælingur við stjórn og var það best rekna tjaldstæði sem við höfðum séð til þessa.
Þá tók vinnan við þegar heim var komið. Næsti stóratburður varð 16. september þegar við héldum til að heimsækja fjölskyldu Sigurgeirs sonar Nonna sjá www.borgarholt.com en hann býr í New York.
Við komum um kvöldið út úr flughöfninni, vorum orðin þreytt eftir langa ferð og sáum að við okkur blasti löng bið eftir leigubíl. Nonni giskar á að 200 mans hafi verið í halarófu að bíða. Við vorum svo heppin að maður fór þarna aftan að hlutunum í bókstaflegri merkingu. Hann horfði á armæðusvipinn á okkur. Hann hafði samið við mann að aka honum niður á Manhattan og bauð okkur að deila bílnum. Þetta kostaði að vísu tvöfalt það sem gulur leigubíll hefði kostað en við vorum guðs fegin að komast í ró.
Það var auðvelt að finna heimili Sigurgeirs og fjölskyldu enda hornhús og allar götur hafa auðskiljanleg númer í stað torkennilegra nafna. Dyraverðirnir vissu hver við vorum - stelpurnar hafa örugglega sagt þeim að von væri á okkur um þetta leiti. Og við drösluðum töskunum upp í lyftu og rukum upp með eldingarhraða upp á 42 hæð. Nonni heldur því fram að það taki lengri tíma að fara upp á fimmtuhæð hér í lyftum hér heima en upp á 42. hæð í New York. Quiss quiss heyrðist þegar farið var á milli hæða hraðar en við gátum talið. 20 sekúndur. lyftan opnaðist. Við bönkuðum og út koma fagnandi fjölskyldan.
Það var notalegt hjá þeim þennan tíma sem við dvöldum. Rólegt - við vorum svo sem ekki að þenja okkur að sjá allt heldur aðalleg að vera með fjölskyldunni. Nonni fór með stelpunum í bókabúð. Elín sagðist ætla að borga. Þegar þær höfðu dvalið þar nokkuð fannst Nonna bunkinn vera orðinn stór. Hann spurði hvort þetta væri ekki dýrt. Nei nei, bækur eru svo ódýrar. Líklega þrjá dollara stykkið. Ekki var minnst á spilið sem var efst og kostaði sko miklu meira. Það var svo á mömmu þeirra að skilja að afi þeirra væri auðplataður.
Það er svo sem meyrt hjartað þegar maður fær ekki að sjá barnabörnin nema endrum og eins.
Við fórum út að borða þarna í nágrenninu, skoðuðum í búðir fórum í garðinn og niður í bæ. Sóttum krakkana í skólann svo dæmi séu tekin. Mesta jammið á okkur var þegar við fórum í leikhús með fjölskyldunni, fórum síðan í reiðhjólaknúnum vagni á japanskt veitingahús þar sem réttirnir voru eldaðir á hitaplötu sem þakti megin hluta borðsins og svo var rönd fyrir diska gesta í U meðfram jöðrunum. Kokkurinn sem stóð við hitaplötuna lék alls konar eftirminnilegar kúnstir meðan hann steikti réttina.
Við fórum líka í bátsferð um árnar i kringum Manhattan.
Við fórum síðan heim 24. september. Þá tók vinnan við, eða svo héldum við. Nonna var sagt upp á fyrsta degi. Það var verið að breyta til að koma fleiri blindum í vinnu á skrifstofu, eða svo var sagt. Alltaf erfitt að lenda í svona en Nonna gengur vel að halda góða skapinu.
6 október var boð hjá einni bekkjasystur Siggu úr húsmæðraskólanum á Ísafirði en þar voru þær við nám veturinn sem Nonni var í landsprófi á Núpi 1967-8. Þær hafa haldið hópinn síðan margar og kalla samkomur sínar saumaklúbb. Daginn eftir fór Nonni ásamt Steina vini sínum upp í veiðivötn í dásamlegu veðri. Alveg einstaklega fallegir haustlitir spegluðust í sléttum vötnunum. Alveg einstakt.
Um seinustu helgi fórum við svo á ball með Kátu fólki. Við vorum í skemmtinefndinni. Það er að vísu þannig að Nonni er einn í félaginu en verður að hafa með sér maka. Sigga var hins vegar kosin í skemmtinefnd og verður að taka með sér maka. Við tókum að okkur að lesa upp gamanljóð og lék Nonni gamlan mann en Sigga tók "viðtal" við hann sem hann svaraði með ljóðinu.
Nonni hefur verið að sinna áhugamálum sínum - snattast og leita að vinnu Sigga hefur sinnt sinni vinnu og við höfum annar haft það rólegt.
Semsagt allt gott að frétta eða að minnsta kosti hér um bil allt
Hafið þið það gott elskurnar mínar.
Nonni og Sigga
Um bloggið
Dagbók Klettássfólksins
Nýjustu færslur
- Áfram með ferðina
- 8-12 júlí
- 4. - 8 júlí
- Byrjun júlí
- Komin heim í heðardalinn - fyrsta húsbílaferð ársins
- Sveitaball um helgina
- Fertugsafmæli grautaskólaútskrftar
- Miður maí
- Skemmtileg vika
- Hækkandi sól
- Göngutúrar og hækkandi sól
- Árshátíð og fleira
- Níundi febrúar
- Fyrsti mánuður ársins
- Gleðilegt ár og þökkum liðið
Tenglar
Tenglar
Bloggvinir okkar.
- Vinir í Portúgal Palli og Þórunn í Portúgal. Palli skrifar.
- Sigurgeir sonur Nonna og fjölskylda.
- Palli og Þórunn í Portúgal Palli og Þórunn í Portúgal. Þórunn skrifar.
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 787
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.