Sunnudagur, 24. september 2006
Húsbíll sóttur og fleira.
Við byrjum frásögnina föstudaginn 15. september. Það eru töskur og alls konar dót á gólfinu og flugmiði til Egilstaða á borðinu. Við erum í fjögra daga fríi.
Leigubíllinn kemur þungar töskurnar sleppa í gegn engin yfirvigt. Við komum okkur þægilega fyrir í flugvélinni, drekkum svolítið djús og lesum blöð og reynum að rýna í landslagið í gegnum skýjagötin án árangurs.
Vélin lendir á Egilsstöðum. Við hringjum í Kristinn sem segist koma með húsbílinn okkar eftir örskamma stund. Við setjumst inn í teríu og bíðum. Nonni sér bílinn á veginum að flugvellinum. Við dröslum töskunum í lyftuna niður á fyrstu hæðina og Nonni fer út á móti bílnum. Nonni réttir Kristni seinasta hluta kaupverðsins tekur við lyklum bílsins. Kristinn segir að starfsfélagi hans muni hringja til okkar og kenna okkur á bílinn.
Viðvörunarljós logar í mælaborðinu. Kristinn segir að óhætt sé að aka bílnum suður en þegar þangað sé komið verði gert við þetta. Bíllinn er í ábyrgð. Túrbóið var bilað og var bíllinn því frekar kraftlaus.
Þá tók við að græja bílinn, taka plast af sætum, setja á hann olíu, gas og vatn. Kaupa í matinn og raða dótinu sem við höfðum burðast með að sunnan.
Klukkan var orðin fimm þegar við héldum frá Egilstöðum sem leið lá norður um til Reykjavíkur. Upphaflega höfðum við ráðgert að fara suður leiðina en bæði vildu ættingjar Siggu á Dalvík gjarnan sjá ökutækið nýja og okkur vonandi líka og veðurútlit var þar betra.
Við komum um kvöldmatarleytið til Mývatns. Við vorum þreytt og þó bíllinn væri fullur af mat þá kusum við að fara inn á Hótel Reynihlíð og fá okkur að borða.
Ekki hugnaðist okkur að gista á tjaldstæði. Héldum við því til baka í átt til jarðbaðanna að leita að heppilegum næturstað. Við tókum tali ökumann húsbíls sem þar var og ætluðum að spyrja hann hvar væru heppilegir staðir til að stoppa á yfir nóttina. Á húsbílnum reyndust vera Ungverjar sem lítið gátu veitt okkur en við gátum hins vegar liðsins með klósettvökva og heilmikið af upplýsingum um Íslend.
Það endaði með því að við ókum í átt til malarnámu og lögðum þar utan vegar. Það var mjög huggulegt að dvelja fyrsta kvöldið í nýja bílnum og lögðumst við þó snemma til svefns enda ferð framundan og morgunbirtan skemmtilegust.
Við vöknuðum kl. 8 morguninn eftir og héldum upp úr hálf tíu sem leið liggur austur og suður fyrir Mývatn og til Akureyrar. Birta og litir voru einstakir, veðrið himneskt. Þegar við komum niður Víkurskarðið var pollurinn við Akureyri spegilsléttur og fagur yfir að líta.
Við héldum að húsi Ellu æsku vinkonu Siggu og Sævars hennar mans en þau eru ný flutt norður í nýtt einbýlishús. Vorum við hjá þeim um stund í góðu yfirlæti og þáðum hádegissnarl. Þegar við komum þaðan var orðið skýjað í Víkurskarðinu og þoka yst í firðinum. Við hefðum ekki mátt vera seinna á ferð til að missa ekki af þeirri náttúrufegurð sem við urðum aðnjótandi.
Það var tekið vel á móti okkur á Dalvík hjá foreldrum Siggu. Við lögðum bílnum fyrir utan æsku heimili Siggu. Kári föðurbróðir Siggu og Guðrún kona hans voru í heimsókn og í berjamó ásamt Herði föður Siggu. Þau komu klifjuð til baka og var ekki annað tekið í mál en að við fylltum ískápinn af þessu góðgæti.
Við fórum í sund, borðuðum og heilsuðum upp á ættingja, sváfum svo út í húsbílnum. Borðuðum morgunmat um morguninn inni hjá foreldrum Siggu og héldum síðan suður. Milt var í veðri en skýjað gott ferðaveður. Þegar á leið morgunninn jók í vindinn og var hraðinn orðinn um 10 m. á sek þegar farið var á Holtavörðuheiðina. Þoka var á heiðinni. Ekki þorði Nonni að hleypa bílum fram úr við þessar aðstæður. Hvergi var hægt að víkja út af veginum og skyggni ekki slíkt að hægt væri að fara yfir á öfugan vegarhelming. Bíllinn silaðist áfram á 50 til 60 km hraða. Krafturinn ekki meiri vegna bilunarinnar. Fyrsta útskotið var við mæðuveikisgirðingarhlið. Það var löng halarófa af bílum sem fór þar fram úr þegar Nonni stöðvaði bílinn á þessu útskoti.
Fyrsta hugmyndin var að stoppa við Bifröst. Ekki fundum við þar sérstakt tjaldstæði og vart tímabært enn að hugsa um slíkt. Við fórum því til Borgarness og lögðum bílnum á planinu fyrir framan hótelið þar. Beint á móti hótelinu býr. Gunnlaugur Sigfússon en Nonni og hann eru systkina börn. Við hringdum, Jóhanna kona Gunnlaugs svaraði og við buðum henni í kaffi. Ha hvar eru þið. Á planinu fyrir framan hjá ykkur. Viljið þið ekki alveg eins koma í kaffi hjá okkur. Það eru ekki allir með drepandi húsbíladellu. Kaffi og spjall eins og í bók eftir Guðrúnu frá Lundi. Við héldum síðan á tjaldstæðið. Þangað komu til okkar Guðrún og Kári sem voru á heimleið. Borðuðu þau hjá okkur kvöldverð. Þegar þau voru farin ákváðum við að fara heim en gista ekki á tjaldstæðinu eins og við höfðu haft í huga. Veðrið var ekki þannig það freistaði okkar. Margt var ógert heima .
Vikan hafði sinn vanagang fram á fimmtudag. Þá komu í mat til okkar Hrefna systir Nonna og Guðjón hennar maður og Kristján Einar. Eftir vinnu á föstudaginn fórum við til Þingvalla snæddum þar kvöldverð afgang af fiskisúpu sem Sigga eldaði fyrir gestina kvöldið áður, höfðum huggulega kvöldstund, spiluðum, lásum og hlustuðum á útvarp. Við vöknuðum kl. 7 á laugardags morgun í yndislegu veðri. Frost hafði verið um nóttina og glitraði frosin döggin á gulnuðu grasinu. Eftir morgunnverðinn fórum við að þingstaðnum og tókum myndir og gengum um staðinn. Alveg óviðjafnaleg stund í morgunkyrrð og birtu. Yndislegir gullnir haustlitirnir. Döggin var byrjuð að bráðna í morgunsólinni þegar við héldum austur með vatninu um Gjábakkaveg. Við stoppuðum hjá vinafólki okkar Óla og Iðunni, sem þarna eiga sumarbústað og þáðum te og kaffi og héldum síðan um Nesjavelli heim. Stuttu eftir heimkomuna komu Alda móðursystir Siggu og Eysteinn hennar maður í heimsókn. Þá fórum við í afmælisboð Bjarna bróðursonar Nonna og í leikhús um kvöldið Pétur Gaut.
Alltaf nóg um að vera hjá okkur Klettássfólkinu.
Elsku vinir og ættingjar sem hafa haft þolinmæði að lesa þetta allt
Hafið þið það alltaf gott
Ykkar vinir
Nonni og Sigga.
Um bloggið
Dagbók Klettássfólksins
Nýjustu færslur
- Áfram með ferðina
- 8-12 júlí
- 4. - 8 júlí
- Byrjun júlí
- Komin heim í heðardalinn - fyrsta húsbílaferð ársins
- Sveitaball um helgina
- Fertugsafmæli grautaskólaútskrftar
- Miður maí
- Skemmtileg vika
- Hækkandi sól
- Göngutúrar og hækkandi sól
- Árshátíð og fleira
- Níundi febrúar
- Fyrsti mánuður ársins
- Gleðilegt ár og þökkum liðið
Tenglar
Tenglar
Bloggvinir okkar.
- Vinir í Portúgal Palli og Þórunn í Portúgal. Palli skrifar.
- Sigurgeir sonur Nonna og fjölskylda.
- Palli og Þórunn í Portúgal Palli og Þórunn í Portúgal. Þórunn skrifar.
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 787
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Elsku vinir, takk fyrir þessa skemmtilegu frásögn. Til hamingju með húsbílinn, hann er glæsilegur og Sigga myndirnar þínar eru líka glæsilegar. Líði ykkur sem best,
Þórunn og Palli í Portúgal
Þórunn (IP-tala skráð) 24.9.2006 kl. 13:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.