Afmælisdagur Unnar Óskar og Kristjönu Óskar

 

Páll og Þórunn vinir okkar í Portúgal fara alltaf á kaffihús á afmælisdögum fjarstaddra ættingja. Við erum búin að fara í afmælisveislu Kristjönu sem býr í Garðabæ. Það er hins vegar lengra að fara til New York þar sem hún Unnur Ósk er og við ætlum að halda upp á afmælið hennar seinna þ.e. fara á kaffihús.  Nú þegar þetta er ritað eru New York búarnir ekki á skybinu enda miður dagur enn hjá þeim þó klukkan sé að nálgast 8 að kveldi hér á skerinu.

 Lífið hefur svo sem gengið sinn vanagang í Klettásnum. Nonni hefur tekið að sér að ganga með pestirnar sem koma að venju á þessum tíma og hefur Sigga harkað þær af sér.

Í síðustu viku fengum við að passa Knút í fyrsta skipti heima hjá honum meðan foreldrarnir fóru í bíó. Við fengum skyndilesningu í serímoníonum sem við hafðar eru áður en hann fer að sofa þannig að honum brigði ekki mikið við að foreldrarnir voru ekki til staðar. Það gékk ágætlega að svæfa hann og höfðum við eftir það rólegt kvöld svo rólegt að engu munaði að við drægjum ýsur þegar foreldrarnir komu heim rúmlega 10 um kvöldið.

Á föstudagskvöldið sáum við Íslensku myndina Köld slóð. Hún var mjög spennandi og vel gerð mynd. Sumir sögðu að hún væri jafnvel betri en Mýrin sem gerð var eftir sögu Arnaldar Indriðasonar. Við vorum því að vísu ekki sammála. Sagan á bak við Mýrina er miklu efnismeiri.

 13. jan. fórum við í afmæli Ísaks Leós sem varð tveggja ára 11. jan. Móðir Ísaks er bróður dóttir Siggu.

Á Íslandi hefur ríkt jökul kuldi það sem af er árinu þó hitinn hafi farið aðeins yfir frostmarkið  í dag. Snjór er yfir öllu sem lætur undan rigningu sem byrjaði í kvöld.

Vinarfólk okkar staldraði við í gær og rifjaði upp með okkur Siggu nokkur dansspor sem voru farin að ryðga. Þetta er liður í undirbúningi undir árshátíð hjá Kátu Fóli sem verður 10. febrúar nk.

Þá hafa vinir okkar heimsótt okkur, Nonni spilað við bridge félagana og Sigga haldið saumaklúbb. Sigga er byrgjuð á föndri með vinnufélögum sínum eftir vinnu annan hvern mánudag og byrjaði það í dag. Semsagt allt samkvæmt venju hér á fróni.

 

Ynnilegar kveðjur til ykkar ættingjar og vinir okkar sem þetta lesið.

 

Ykkar

 

Nonni og Sigga.  

 

 

 

 


Nýársnótt.

Nú eru áramótin senn að ganga í garð í henni Ameríku þar sem sonur Nonna - Sigurgeir - býr ásamt fjölskyldu sinni.  Áramót Þau fá ekki að njóta Íslenskrar geðveiki í sprengilátum og sakna þess. Þessi mynd er sett sérstaklega fyrir þau og aðra ættingja og vini erlendis sem ekki fá að njóta.

 

Við höfum haft mjög hugguleg áramót hér í Klettási 12. Auðunn og Súsanna og Kristján voru í mat. Kalkúnninn hepnaðist venju betur. Við létum hann malla í marga klukkustundir við lágan hita í gærkvöldi og brúnuðum hann rétt fyrir komu gestana með stöðugum austri yfir hann til að halda honum mátulega safaríkum. Sigga fer að vinna snemma í fyrramálið og fór að sofa rétt eftir miðnættið og sprenjurnar hafa snarlega minnkað hér í hverfinu.

 Elsku vinir og ættingjar

Bestu kveðjur og óskir til ykkar allra.

 

Nonni og Sigga.


Árslok 2006

 

Jæja þá eru áramótin að  nálgast og jólin byrjuð að taka á sig hversdagslegri blæ með vinnu og því venjulega. Skrautið og ljósin eru enn uppi en magarnir löngu búnir að fá nóg af öðrum hliðum jólanna.

 Aðfangadagskvöldið var rólegt eins og það á að vera. Kristján borðaði með okkur.  Svínahryggurinn sem Nonni kom fyrir í potti og síðan ofni hepnaðist ágætlega. Ekki gat Sigga horft á aðgerðarlaus og bætti við máltíðina sultu-rauðlauksrétti og valdorfssalati sem annars hefði orðið hefðbundinn með sykruðum kartöflum og grænum baunum. Sigga sér alltaf um  frumas með möndlu. Yfirleitt vinnur Kristján til möndlugjafarinnar en nú brá svo við að Sigga fékk hana.

 

Eftir matinn náði Kristján í  pakka undir jólatréð og afhenti okkur og sér þá - eftir því sem við átti.

Á jóladag var hér mikil veisla með ættingjum Nonna og Kristján Einar og Birna kærasta hans komu. Um þrjátíu manns komu og var heilmikið fjör, sérstaklega í þeim yngstu. Það var komið kvöld þegar seinustu gestirnir fóru til síns heima.

Annan í jólum tókum við rólega. Göngutúr og afslappelsi fyrri hluta dagsins. Um kvöldið litu Kári og Guðrún til okkar og um það leiti sem þau voru að tía sig til brottfarar komu Bjössi bróðir Kristjáns heitins og kona hans Aldís. Þetta var í alla staði mjög huggulegt kvöld.

 Þriðja í jólum fór Sigga til vinnu en í vinnu Nonna var gefið bökunarfrí fyrir jólin og tók Nonni það út þennan dag. Hann gat því afgreitt útréttingar sem  lágu fyrir eftir hátíðirnar.

Um kvöldið fórum við í heimsókn til vina okkar Ella og Sigrúnar og áttum með þeim góða kvöldstund.

Nú í kvöld 28. desember komu frænkur Siggu, Þær Auður, Valgerður og Erna ásamt dótturinni Söru.

Þær eru systur og eru þremenningar við Siggu. Auður var í Ameríku um sama leiti og Sigga og brölluðu þær margt saman þar á sínum tíma.

Ryfjaðar voru upp minningar að  Norðan og úr Ameríku og var það mjög skemmtilegt. Á boðstólnum var fiskisúpa að hætti hússins.

 

Auður býr í NY fylki með manni sem hún kynntist þegar þær voru saman í Ameríku hún og Sigga. Hún segir að Sigga hafi kynnt sig fyrir núverandi manni sínum  á sínum tíma.

 

Kæru vinir og ættingjar.

 Klettásfólkið óskar ykkur gleðilegra restar af þessum jólum og farsældar á nýju ári. Við þökkum allt gamalt og gott.

 

Wizard

 

 


Rétt fyrir jólin 2006

 

Nú eru að koma jól. Við höfum ekkert skrifað allan desembermánuð. Þetta

er einfaldlega vegna þess að það hefur verið svo mikið að gera.

Við vorum nánast búin að skreyta allt í byrjun aðventu og við vorum

líka snemma búin með jólakortin. Þó voru prentararnir okkar ekki eins

fljótir og þeir lofuðu og síðan mátti teygja kortin út úr þeim með

töngum. Fyrst eitt síðan 42 þá 89. Loks fengum við það sem upp á

vantaði upp í þau 160 sem við pöntuðum og tíu betur.

Einn daginn leigið Nonni studioljós og tók myndir af þeim sem höfðu

beðið um slíkt. Það var dóttir vinafólks okkar frá Ísafirði og hennar

maður. Þau voru með þrjár húfur, students-, sjúkraliða- og

sveinsprófshúfu. Þá kom samstarfskona Nonna með fimm barnabörn sín. Að

síðustu kom fjölskylda Auðuns sonar Nonna.

Þetta tók lungað úr einum laugardegi. Við tók tugi tíma vinna. Að

meðaltali tekur það Nonna tvo tíma að vinna hverja mynd.

Sátum við á síðkvöldum upp á hyllunni okkar, Sigga með saumana og Nonni

í myndvinnslunni.

Fólk var almennt ánægt með myndirnar og til þess var leikurinn gerður.

Þá er ósagt frá mikili veislu sem haldin var í Klettásnum fyrir

vinnufélaga Siggu og maka. (Þannig að Nonni fékk að vera með.) Keyptur

var tilbúinn matur sem kom í miklum einangrunarkössum. Þetta var hin besta skemmtun og þótti

fólkinu gaman að koma í skreytt húsið okkar.

Nonni var kynnir á aðventuskemmtun í Klúbbnum Geysi. Þar voru borð

hlaðin með dýrindis grísakjöti og meðlæti. Félagar og vinir þeirra

skemmtu með söng og spili. Aðgöngumiðinn var einnig happdrættismið og

fjölda vinninga.

Fyrir þá sem ekki vita þá er Klúbburinn félag þeirra sem átt hafa við

geðræna sjúkdóma að stríða og styður hann félaga til eðlilegs lífs  að

nýju eftir veikindi.


Elsku ættingjar og vinir

Við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsællar framtíðar
og þökkum allt það liðna.

Nonni og Sigga.

 

 


Nóvemberlok

Nú fer að líð að jólum.  Það hefur verið algjört vetrarríki hér á hinu kalda Íslandi. Frostið hefur farið langt niður fyrir -10 gráður hér í byggð og enn kaldara inn til landsins. Um síðustu helgi fórum við á skemmtun með starfsfélögum Nonna í Skíðaskálan í Hveradölum. Það var þá sem byrjaði að kyngja niður snjó. Við fórum á bíl. Um kl. 10:30 spurði Klara starfsfélagi Nonna um hvort ekki væri möguleiki að komast heim. Nonni svarðai: "Ef Sigga er til að koma heim þá er ég það" og Sigga var til. Um það leiti sem við komum heim um kl. 11 byrjaði að kyngja niður snjó og var nokkur vindur með snjókomunni. Við vorum því fegin að hafa komist heim fyrir þann tíma. Aðrir fóru með rútum og komust allir klakklaust í bæinn. Einhverjir sem ekki létu sér nægja að hætta leik þá er hæst hann stóð og fóru á öldurhús í Reykjavík áttu í einhverjum erfiðleikum vegna veðurs. Það var svo í fréttum að það hafi þurft að senda rútu í miðbæinn til að bjarga fólki eftir að leigubílar hættu að ganga vegna ófærðar. Það var svo ekki fyrr en morguninn eftir að hafist var handa að hreinsa göturnar.

Við höfum fengið heimsóknir vina okkar og ættingja. Eitt kvöldið litu Sigrún og Elli inn, Auðunn, Súsanna og Knútur komu í mat, Óli og Iðunn vinafólk okkar leit við og ræddu við Siggu meðan Nonni var að spila Bridge með félögum sínum. Óli kom svo aftur í dag og leit yfir og sagði fyrir um loka hönd á myndvinnslu sem Nonni vann fyrir hann fyrir jólakort hans.

Við létum setja tvær myndir í innrömmun nýlega og vorum að sjá árangurinn í dag. Önnur myndin er útsaumsmynd eftir Siggu og hin er mynd sem var á heimili afa Nonna og er erftir Sigfús Halldórsson. Við erum mjög ánægð með árangurinn. Snjomynd_i_november

 Annars hefur tíminn farið í snjómokstur, þrif, afslappelsi, sjónvarpsgláp og hobby sinnu.

Elsku viniri og ættingjar

Bestu óskir frá okkur í Klettásnum

 

Nonni og Sigga.


Afmæli eftir afmæli

Í dag á hann Pétur Þór sonarsonur hans Nonna afmæli. 1. nóvember er afmæisdagurinn hennar Siggu og fórum við út að borða á Pizza Hut. Sigga bakaði og það var heilmikil traffik. 3. nóvermber átti Habba systir Nonna afmæli og hélt upp á það þann 4. Jón Kristjánsson stjúpsonur Siggu átti afmæli 4. nóvember. Níunda nóvember hélt mamma Nonna upp á 60 ára brúðkaupsafmæli sitt og Sigurgeirs heitins.

 Við létum mála opnu rýmin fyrir nokkru eins og við tiunduðum á sínum tíma. Nú máluðum við svefnherbergið okkar um seinustu helgi. Við höfum haldið hrimhvíta litnum á öllu nema þeim vegg sem rúmgaflinn okkar er við og er hann milli brúnn.

Skammdegið var byrjað að hafa áhrif á Nonna. Hann keypti í fyrra lampa sem líkir eftir sólarljósi og fer hann í sólbað á hverjum morgni og hefur það mjög góð áhrif.

Sigga er að taka út sumarleyfið sitt. Hún vinnur heilmikið í handavinnu og dúllar sér í rólegheitunum heima.

Það eru alltaf nokkur  gestagangur þó síðustu vikukrnar hafi verið með rólegast móti fyrir utan afmælið., t.d. hafa Kjartan og Dísa  (bróðir nonna og mákona) komið, Auðunn, Súsann og Knútur Þór. Hrafnhildur mamma Nonna.

 Eins og við höfum sagt hér á síðunni þá bjóðum við Hrafnhildi mömmu nonna á kaffihús eða heim í mat á sunnudögum. Seinasta sunnudag hafði hún tekið fram að hún færi hvergi þar sem hún væri svo kvefuð. Við sögðumst þá bara koma í heimsókn til hennar. Þegar við komum var hún hins vegar komin í kábuna og sagðist nú ekki sleppa svona gylliboði að fara út með okkur. Það þýddi súpa og brauð á Aski.

 Elsku vinir og ættingjar.

 

Hafið þið það alltaf gott

 

Ykkar

Nonni og Sigga.

 

                                                


Afmæli Hermínu

Mamma hennar Siggu varð 80 ára þann 28. þm. sama dag og hún Sandra (borgarholt.com) varð sjö ára. Við gátum ekki heimsótt hana Söndru því það er svo langt til hennar. Hún býr í New York. Því gerðum við það næst besta og brugðum okkur norður fyrir heiðar í veislu sem Sigga og systkini hennar héldu mömmu sinni í Mímisbrunni, félagsaðstöðu eldri borgara á Dalvík. Við héldum af stað eftir vinnu á fimmtudaginn, föstudagurinn fór í undirbúning afslappelsi og síðan var veislan kl. 3 á laugardag. Sunnudagurinn fór að mestu í aksturinn heim. Fórum um hádegi og komum um kl. 6.

 Veðrið var ágætt fyrir norðan og á báðum leiðum en mun hafa verið hryssingslegt hér fyrir sunnan meðan við vorum norðan heiða.

 Nonni tók nokkrar myndir í veislunni sem verða birtar hér á blogginu síðar.

 Það er alltaf yndislegt að koma norður. Þar búa foreldrar og systkini Siggu og okkur er tekið þar með kostum og kynjum.

Sandra hringdi á afmælisdaginn sinn í afa sinn og var það nú aldeilis sárabót fyrir að geta ekki skroppið til hennar.

Jæja elsku vinir og ættingjar. Við skulum bara hafa þetta stutt í dag. Klukkan er orðin margt og við erum að fara að sofa.

 

Hafið þið það alltaf gott og gæfan fylgi ykkur.

 

Ykkar Nonni og Sigga.


26 oktober 2006

 

Það kólnaði nokkra daga, hitinn fór niður í 5 stiga frost og nú er komin rigning.

Um seinustu helgi fórum við á húsbílnum í blíðskapar veðri - fyrst til Hveragerðis og síðan upp í Grímsnes beygðum í átt til þingvalla og síðan um þingvelli og heim. Í hveragerði komum við fyrir skáp sem við þurftum að losa okkur við. Borðuðum á SubWay á Selfossi héldum síðan upp í sumarbústaði Jóns og Gabríelu (stjúbbarna Siggu) Vorum þar góða stund í góðu yfirlæti áður en við héldum heim.

 Þetta var eftirminnileg ferð. Um síðustu helgi var dagur Hvítastafsins. Nonni var að vinna í Smáralind að taka myndir. Settir voru upp básar og ýmislegt sem varðar blinda kynnt.

 Í vikunni hafa Auðunn Súsanna Knútur og Kristján komið að borða hjá okkur. Við tókum Hrafnhildi mömmu Nonna á kaffihús á Sunnudaginn og Elli og Sigrún komu í heimsókn.

 Annars gengur lífið sinn vanagang í Klettási kæru vinir og ættingjar.

Hafið þið það öll gott og gæfan fylgi ykkur.

 

Ykkar Nonni og Sigga.


Geðheilbrigðisdagurinn 10. október

 

Það er geðheilbrigðisdagurinn í dag. Í tilefni hans var sýning á verkum fólks sem hefur átt við slíkan vanda að etja í Ráðhúsi Reykjavíkur. Sýningin var aðeins tvo daga um  seinustu helgi og hafði Nonni þar ljósmynd frá Þingvöllum framkallaða á striga.

Við höfum farið á skemmtanir í félagsskap sem heitir "Kátt fólk".

Félagsskapurinn gengur ekki út á neitt annað en að halda gömludansaböll fjórum sinnum á ári.  Krafist er formlegs klæðnaðar (svört jakkaföt, slaufur og síðkjólar) og er óheimilt að karlmenn fari úr jakkanum á meðan skemmtun stendur. Skemmtanirnar eru áfengislausar og ekki er reykt í salnum. Hreint loft og ælulausar skemmtanir.

 Við fórum sem sagt á slíka skemmtun á laugardaginn og sóttum um aðild að félaginu. Það má maður gera eftir að hafa sótt tvær skemmtanir sem gestur einhvers og fengið góð meðmæli.

Nú er Blindrasýn, blaði Blindrafélgsins, sem dreift er sem fylgiriti Moggans að verða full mótað.

Flestar myndirnar eru aðfengnar. Þó er forsíðan og tvær myndir inn í blaðinu eftir Nonna. Starfsfélagar í Blindrafélaginu eru hæst ánægðir yfir myndunum er alltaf gaman að einhverjir sýni verkum mans áhuga.

Sigga hefur verið að sauma nýjar gardínur í stofuna. Eins og við höfum sagt frá hér áður þá létum við mála opna rými hússins og röðuðum húsgögnum og myndum upp á nýtt. Sigga hafði keypt gardínur í Rúmfatalagernum fyrir lítið í fyrra en þær hlupu í þvotti. (Einnota gardínur). Tók hún sig því til og keypti efni í nýjar og erum við hæst ánægð með þær.

Sigga sækir um þessar mundir námskeið í geðsjúkdómum í tengslum við vinnuna sína.

 Nonni hefur verið að kenna á Photoshop í Klúbbnum Geysi. Hann hefur haft námskeiðið einu sinni og voru nemendur mjög góðir. (Tóku vel við) Hann reiknar með að hafa námskeiðið tvö þrjú skipti í viðbót.

 Við erum byrjuð á vetrardundinu - áhugamálum sem liggja í lægð yfir sumarið . Nonni er að vinna í myndum og Sigga er með handavinnu. Að vísu leggur Sigga aldrei frá sér handavinnuna þó hún sé aðeins minni yfir sumarið.

 Eins og fyrri daginn.

Elsku vinir og ættingjar og aðrir sem lesa þessi orð.

Hafið þið það gott og leitið sífellt gleðinnar.

 

Ykkar

 

Nonni og Sigga

 

 

 

 

 


Lok september 2006

Þriðjudaginn í lok september buðum við Auðunni og Súsönnu á Pizza Hut og að sjálfsögðu fylgdi hann Knútur með þó hann hafi ekki fengið pizzu. Auðunn er nýbyrjaður í vinnu hjá Securitas. Hann vinnur í sjö daga og hefur frí í sjö. Þetta var frí vika hans og því ætluðum við að bjóða þeim heim. Það var hins vegar ekki hægt því allt var undirlagt heima hjá okkur. Verið var að mála opna rýmið og húsgögnin saman í kös á miðju gólfinu og allt í málningarlykt.

Eftir þetta höfum við verið að vinna á draslinu. Við höfðum tekið niður flesta nagla því við ætluðum að breyta myndröðuninni. Bæði erum við hrifin af tilbreytingu og líka vorum við aldrei fyllilega sátt við upphaflegu röðunina. Við höfðum ekki gefið okkur nægjanlegan tíma til að raða myndum í upphafi enda þá um margt að hugsa.

Við breyttum líka röðun húsgagna – höfum fækkað stórum hlutum í setustofunni og þannig létt svolítið á. Hún virkar rýmri á eftir. Við höfum lokið uppsetningu stærstu myndanna en nokkrar af smærri myndunum eru enn óuppsettar. Við þurfum aðeins lengri tíma til að finna þeim stað.

Mamma Nonna átti afmæli á laugardaginn 30. sept. Systkini Nonna héldu henni boð hjá Höbbu systur Nonna. Sigga gerði eftirrétt og notaði til þess m.a. ber sem Hörður pabbi hennar hafði týnt. Dísa mákona Nonna gerði forréttinn sem var melóna með hrá skenku. Habba sá svo um aðalréttina og var aðaluppistaða þeirra fiskur.

Við fórum á sunnudaginn var í heimsókn til vinafólks okkar í sumarbústað í Vaðnesi í Grímsneshreppi. Heiður himin var. Það andaði aðeins af norðri og var 11 stiga hiti. Alveg einstakt í byrjun október.

Á heimleiðinni fengum við okkur snarl á Sub Way á Selfossi, heimsóttum Hrafnhildi mömmu Nonna.

Elsku vinir og ættingjar nær og fjær.

Þetta eru helstu atburðir liðinnar viku.

Þakka ykkur fyrir að fylgjast með okkur og hafið þið það alltaf gott.

Ykkar


Nonni og Sigga.


Húsbíll sóttur og fleira.

Á þingvöllumVið byrjum frásögnina föstudaginn 15. september. Það eru töskur og alls konar dót á gólfinu og flugmiði til Egilstaða á borðinu. Við erum í fjögra daga fríi.

Leigubíllinn kemur – þungar töskurnar sleppa í gegn – engin yfirvigt. Við komum okkur þægilega fyrir í flugvélinni, drekkum svolítið djús og lesum blöð og reynum að rýna í landslagið í gegnum skýjagötin án árangurs.

Vélin lendir á Egilsstöðum. Við hringjum í Kristinn sem segist koma með húsbílinn okkar eftir örskamma stund. Við setjumst inn í teríu og bíðum. Nonni sér bílinn á veginum að flugvellinum. Við dröslum töskunum í lyftuna niður á fyrstu hæðina og Nonni fer út á móti bílnum. Nonni réttir Kristni seinasta hluta kaupverðsins tekur við lyklum bílsins. Kristinn segir að starfsfélagi hans muni hringja til okkar og kenna okkur á bílinn.

Viðvörunarljós logar í mælaborðinu. Kristinn segir að óhætt sé að aka bílnum suður en þegar þangað sé komið verði gert við þetta. Bíllinn er í ábyrgð.  Túrbóið var bilað og var bíllinn því frekar kraftlaus.

Þá tók við að græja bílinn, taka plast af sætum, setja á hann olíu, gas og vatn. Kaupa í matinn og raða dótinu sem við höfðum burðast með að sunnan.

Klukkan var orðin fimm þegar við héldum frá Egilstöðum sem leið lá norður um til Reykjavíkur. Upphaflega höfðum við ráðgert að fara suður leiðina en bæði vildu ættingjar Siggu á Dalvík gjarnan sjá ökutækið nýja og okkur vonandi líka og veðurútlit var þar betra.

Við komum um kvöldmatarleytið til Mývatns. Við vorum þreytt og þó bíllinn væri fullur af mat þá kusum við að fara inn á Hótel Reynihlíð og fá okkur að borða.

Ekki hugnaðist okkur að gista á tjaldstæði. Héldum við því til baka í átt til jarðbaðanna að leita að heppilegum næturstað. Við tókum tali ökumann húsbíls sem þar var og ætluðum að spyrja hann hvar væru heppilegir staðir til að stoppa á yfir nóttina. Á húsbílnum reyndust vera Ungverjar sem lítið gátu veitt okkur en við gátum hins vegar liðsins með klósettvökva og heilmikið af upplýsingum um Íslend.

Það endaði með því að við ókum í átt til malarnámu og lögðum þar utan vegar. Það var mjög huggulegt að dvelja fyrsta kvöldið í nýja bílnum og lögðumst við þó snemma til svefns enda ferð framundan og morgunbirtan skemmtilegust.

Við vöknuðum kl. 8 morguninn eftir og héldum upp úr hálf tíu sem leið liggur austur og suður fyrir Mývatn og til Akureyrar. Birta og litir voru einstakir, veðrið himneskt. Þegar við komum niður Víkurskarðið var pollurinn við Akureyri spegilsléttur og fagur yfir að líta.

Við héldum að húsi Ellu æsku vinkonu Siggu og Sævars hennar mans en þau eru ný flutt norður í nýtt einbýlishús. Vorum við hjá þeim um stund í góðu yfirlæti og þáðum hádegissnarl. Þegar við komum þaðan var orðið skýjað í Víkurskarðinu og þoka yst í firðinum. Við hefðum ekki mátt vera seinna á ferð til að missa ekki af  þeirri náttúrufegurð sem við urðum aðnjótandi.

Það var tekið vel á móti okkur á Dalvík hjá foreldrum Siggu. Við lögðum bílnum fyrir utan æsku heimili Siggu. Kári föðurbróðir Siggu og Guðrún kona hans voru í heimsókn og í berjamó ásamt Herði föður Siggu. Þau komu klifjuð til baka og var ekki annað tekið í mál en að við fylltum ískápinn af þessu góðgæti.

Við fórum í sund, borðuðum og heilsuðum upp á ættingja, sváfum svo út í húsbílnum. Borðuðum morgunmat um morguninn inni hjá foreldrum Siggu og héldum síðan suður. Milt var í veðri en skýjað – gott ferðaveður. Þegar á leið morgunninn jók í vindinn og var hraðinn orðinn um 10 m. á sek þegar farið var á Holtavörðuheiðina. Þoka var á heiðinni. Ekki þorði Nonni að hleypa bílum fram úr við þessar aðstæður. Hvergi var hægt að víkja út af veginum og skyggni ekki slíkt að hægt væri að fara yfir á öfugan vegarhelming. Bíllinn silaðist áfram á 50 til 60 km hraða. Krafturinn ekki meiri vegna bilunarinnar. Fyrsta útskotið var við mæðuveikisgirðingarhlið. Það var löng halarófa af bílum sem fór þar fram úr þegar Nonni stöðvaði bílinn á þessu útskoti.

Fyrsta hugmyndin var að stoppa við Bifröst.  Ekki  fundum við þar sérstakt tjaldstæði og vart tímabært enn að hugsa um slíkt. Við fórum því til Borgarness og lögðum bílnum á planinu fyrir framan hótelið þar. Beint á móti hótelinu býr. Gunnlaugur Sigfússon en Nonni og hann eru systkina börn. Við hringdum, Jóhanna kona Gunnlaugs svaraði og við buðum henni í kaffi. Ha hvar eru þið. – Á planinu fyrir framan hjá ykkur. – Viljið þið ekki alveg eins koma í kaffi hjá okkur. Það eru ekki allir með drepandi húsbíladellu.  Kaffi og spjall eins og í bók eftir Guðrúnu frá Lundi. Við héldum síðan á tjaldstæðið. Þangað komu til okkar Guðrún og Kári sem voru á heimleið. Borðuðu þau hjá okkur kvöldverð. Þegar þau voru farin ákváðum við að fara heim en gista ekki á tjaldstæðinu eins og við höfðu haft í huga. Veðrið var ekki þannig það freistaði okkar. Margt var ógert heima .

Vikan hafði sinn vanagang fram á fimmtudag. Þá komu í mat til okkar Hrefna systir Nonna og Guðjón hennar maður og Kristján Einar. Eftir vinnu á föstudaginn fórum við til Þingvalla snæddum þar kvöldverð afgang af fiskisúpu sem Sigga eldaði fyrir gestina kvöldið áður, höfðum huggulega kvöldstund, spiluðum, lásum og hlustuðum á útvarp. Við vöknuðum kl. 7 á laugardags morgun í yndislegu veðri. Frost hafði verið um nóttina og glitraði frosin döggin á gulnuðu grasinu. Eftir morgunnverðinn fórum við að þingstaðnum og tókum myndir og gengum um staðinn. Alveg óviðjafnaleg stund í morgunkyrrð og birtu. Yndislegir gullnir haustlitirnir. Döggin var byrjuð að bráðna í morgunsólinni þegar við héldum austur með vatninu um Gjábakkaveg. Við stoppuðum hjá vinafólki okkar Óla og Iðunni, sem þarna eiga sumarbústað og þáðum te og kaffi og héldum síðan um Nesjavelli heim. Stuttu eftir heimkomuna komu Alda móðursystir Siggu og Eysteinn hennar maður í heimsókn. Þá fórum við í afmælisboð Bjarna bróðursonar Nonna og í leikhús um kvöldið – Pétur Gaut.

Alltaf nóg um að vera hjá okkur Klettássfólkinu.

Elsku vinir og ættingjar sem hafa haft þolinmæði að lesa þetta allt

Hafið þið það alltaf gott

Ykkar vinir

Nonni og Sigga.
Húsbíll


12. september

Var það annars ekki höfundarnafn sem kom aftur og aftur fram í óskalagþáttum í gamladaga þe 12 september.

 

Sá atburður sem er okkur minnisstæðastur þann hálfan mánuð sem liðinn er frá seinustu færslu er skírnin hans Knúts þórs Auðunssonar. Hún for fram hjá Afa Knúti og ömmu Þuríði. Það var heimaskírn og skírnarfonturinn var gömul og marg blessuð skál sem notuðu hafði verið oft við slíkar athafnir í fjölskyldunni.

 Það var afi Knútur sem hélt nafna sínum undir skírn. Sá yngri ætlaði eitthvað að hafa sig í frami en afi Knútur ruggaði honum rólega í svefn.

Knútur var skírður á Laugardaginn 9. Daginn eftir var fjölskylduboð í Nonna fjölskyldu hjá Kjartani bróður hans í Breiðahvarfi. Sýndar voru gamlar litskyggnur mest af fjölskyldunni. Vélin sem notuðu var var komin á sextugs aldurinn og þurfti stuðning í hverju skrefi. Myndirnar voru margar svo dökkar að það þurfti að geta sér til um hvað væri á þeim. Hlegið var af myndatökunni sem þótti skondin á stundum. Þegar málverk sást yfir hópi af fólki var málverkið skirt en aðeins sást í hluta af hausum á fólkinu og stundum var andlitunum sleppt og aðeins myndaður búkurinn. Það varð hins vegar mikil ánægja í eldra liðinu þegar birtust myndir af nú háfullorðnum börnum þeirra á bleyju einni fata. (Nokkuð yngri á myndinum en þau eru nú). Þetta er hann Snorri minn og svo framvegis.

 Nú er húsbíllinn kominn til landsins og Sigga hefur verið dugleg að kaupa ýmislegt smálegt sem nauðsynlegt er í slíka útgerð.

 Annars hefur þetta verið svona venju samkvæmt Kristján og Birna og Auðun og Súsanna með Knút hafa komið í mat - annars hefur þetta verið sambland af vinnu og afslappelsi

 Núna í gær hringdi til Nonna blaðamaður sem hafði einhvernveginn komist að deilunni sem við eigum um pallinn hér á lóðinni. Þó við hefðum alls ekki óskað okkur að gera þetta mál að blaðamáli fannst Nonna skárra að svara blaðamanninum heldur en að hann skrifaði einhverja frétt út í loftið.

Það reyndist líklega best því hann hafði fengið í hendur bréf til bæjarins með orðalagi sem Nonni vildi gjarnan skíra svo ekki yrði af því misskilningur.  Nonni gætti þess að ekki kæmi fram sá pirringur sem er út í stjórnvöld að hafa ekki afgreitt þetta mál þau fjögur ár sem það hefur verið í gangi.  Það vinnst ekki neitt með þvi að heyja slík mál í blöðunum.

 Í gærkvöldi komu hingað Ásgeir kórfélagi Nonna og samfélagi í Geysi og Sigrún kona hans. Snæddu þau með okkur kvöldmat og spjölluðu við okkur fram eftir kvöldi. Var af því hin mesta skemmtun enda langt um liðið síðan við fórum til þeirra í sumarbústað þeirra í Borgarfirði.

 

Elsku vinir og ættingjar

Þakka ykkur fyrir að fylgjast með okkur.

Megi heilsa gleði og hamingja umlykja ykkar líf.

 

Ykkar

 

Nonni og Sigga.

 


Að lokinni svaðilför

Fyrir Nonna er það meiriháttar svaðilför að fara í jeppa um hálendið og gista í tjaldi og það um há sumarið. Hann hefur aldrei séð þann hluta hálendisins sem hann fór um um helgina. Sprengisandsleið - sunnan við Öskju - leið sem kallast Gæsavatnaleið - í Herðubreiðarlindir, Kverkfjöll og síðan niður með Kárahnjúkum og landveginn um suðurland til Reykjavíkur. Hann gisti í Herðurbreiðarlindum í tjaldi eina nótt og síðan í bændagistingu rétt austan við Höfn aðra nótt. Hann tók fullt af myndum sem hann er nokkuð sáttur við.

Venjulega höfum við samband við mömmu Nonna á sunnudögum, bjóðum henni heim eða tökum hana á Kaffihús. Þar sem Nonni kom ekki fyrr en kl. 8 um kvöldið heim fórum við aðeins í heimsókn til hennar og horfðum á Monk framhaldsþáttinn í Sjónvarpinu.

 Á meðan Nonni var að sýna karlmennsku sína var Sigga heima.  Á föstudagskvöldið fór hún í heimsókn til Ingu Hjartar sem ættuð er úr Hnífsdal og Margrét - eldri kona í Furugerði fór með henni. Á laugardeginum fór hún ásamt Kára og Guðrúnu í heimsókn til Hlínar föðursystur Siggu sem er á Eir. Þá var Elísabet Emma með Siggu ömmu sinni um daginn og gisti um nóttina. Fóru þær í Kringluna og síðan í heimsókn til Hröbbu og Birgis. Þá var farið á McDonalds og síðan var horft á teiknimyndir fram eftir kvöldi. Á sunnudeginum fór þær heim til Elísabetar og sóttu systur hennar Margréti Helgu. Fóru síðan allar þrjár í bíó að sjá Gretti 2.

Einn daginn í vikunni festum við kaup á húsbíl sem við vonumst til að verði heimili okkar um helgar. Hann kemur með Norrænu þann 9. september nk.

Þarseinustu helgi spiluðum við m.a. við Ella og Sigrúnu fram eftir laugardagsnóttunni.  

 

Kær kveðja elsku vinir og ættingjar

Þakka ykkur fyrir að fylgjast með þessum skrifum okkar

Það væri gaman að sjá nöfnin ykkar í gestabókinni

 

Ykkar

 

Nonni og Sigga.


önnu vika ágústs

Það var svo margt sem skeði um seinustu helgi að við höfum ekki tíundað það allt. Það gleymdist að geta þess að við fórum í heimsókn til Ástu og Halla vina okkar sem búa á Seltjarnarnesi og skoðuðum íbúð þeirra sem þau fluttu í fyrir nokkrum mánuðum síðan en okkur hafði ekki unnist tími til að skoða. Þá spiluðum við á laugardagskvöldið við Sigrúnu og Ella. Ég segi aldrei frá hvernig gengur þegar ég tapa þó það hafi ekki munað nema örfáum slögum og Elli hafi náð því í seinasta spilinu með því að taka áhættuna. Vogum vinnur vogum tapar.

Vikan hefur gengið sinn vana gang. Það hefur rignt heilmikið en veður annars verið millt. Í gær fórum við á Súfistann um það leyti þegar GayPride gangan var. Nonni kom sér fyrir út á skyggninu og tók myndir. Við komum þar fyrir eitt og gangan fór ekki fram hjá fyrr en undir þrjú. Nonni tók um þrjúhundruð myndir.

Eftir að hafa velt fyrir okkur bíóferð í gærkveldi varð leningin rólegt kvöld heima. Nú er sunnudagur  og komið undir hádegi. Við sitjum hér upp á palli. Eftir bloggið fer Sigga að sauma og Nonni að vinna í myndum.  Við ætlum síðan að hjóla út eftir Álftanesi kaupa í matinn en Auðunn og fjölskylda og mamma Nonna koma í heimsókn í kvöld.

Nóg í bili kæru vinir

 

Ykkar Nonni og Sigga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Dagbók Klettássfólksins

Þetta er dagbók Jóns Sigurgeirssonar og Sigríðar Harðardóttur Klettási í Garðabæ. Henni er haldið út vegna fjölmargra vina og ættingja sem eru fjarri okkur í vegalengdum mælt.

Höfundur

Sigríður Harðardóttir
Sigríður Harðardóttir

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG 3267 edited 1
  • 20080524 IMG 2486
  • 20080524 IMG 2512
  • 20080524 IMG 2553
  • 20080524 IMG 2553

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 787

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband