Færsluflokkur: Bloggar

Að lokinni svaðilför

Fyrir Nonna er það meiriháttar svaðilför að fara í jeppa um hálendið og gista í tjaldi og það um há sumarið. Hann hefur aldrei séð þann hluta hálendisins sem hann fór um um helgina. Sprengisandsleið - sunnan við Öskju - leið sem kallast Gæsavatnaleið - í Herðubreiðarlindir, Kverkfjöll og síðan niður með Kárahnjúkum og landveginn um suðurland til Reykjavíkur. Hann gisti í Herðurbreiðarlindum í tjaldi eina nótt og síðan í bændagistingu rétt austan við Höfn aðra nótt. Hann tók fullt af myndum sem hann er nokkuð sáttur við.

Venjulega höfum við samband við mömmu Nonna á sunnudögum, bjóðum henni heim eða tökum hana á Kaffihús. Þar sem Nonni kom ekki fyrr en kl. 8 um kvöldið heim fórum við aðeins í heimsókn til hennar og horfðum á Monk framhaldsþáttinn í Sjónvarpinu.

 Á meðan Nonni var að sýna karlmennsku sína var Sigga heima.  Á föstudagskvöldið fór hún í heimsókn til Ingu Hjartar sem ættuð er úr Hnífsdal og Margrét - eldri kona í Furugerði fór með henni. Á laugardeginum fór hún ásamt Kára og Guðrúnu í heimsókn til Hlínar föðursystur Siggu sem er á Eir. Þá var Elísabet Emma með Siggu ömmu sinni um daginn og gisti um nóttina. Fóru þær í Kringluna og síðan í heimsókn til Hröbbu og Birgis. Þá var farið á McDonalds og síðan var horft á teiknimyndir fram eftir kvöldi. Á sunnudeginum fór þær heim til Elísabetar og sóttu systur hennar Margréti Helgu. Fóru síðan allar þrjár í bíó að sjá Gretti 2.

Einn daginn í vikunni festum við kaup á húsbíl sem við vonumst til að verði heimili okkar um helgar. Hann kemur með Norrænu þann 9. september nk.

Þarseinustu helgi spiluðum við m.a. við Ella og Sigrúnu fram eftir laugardagsnóttunni.  

 

Kær kveðja elsku vinir og ættingjar

Þakka ykkur fyrir að fylgjast með þessum skrifum okkar

Það væri gaman að sjá nöfnin ykkar í gestabókinni

 

Ykkar

 

Nonni og Sigga.


önnu vika ágústs

Það var svo margt sem skeði um seinustu helgi að við höfum ekki tíundað það allt. Það gleymdist að geta þess að við fórum í heimsókn til Ástu og Halla vina okkar sem búa á Seltjarnarnesi og skoðuðum íbúð þeirra sem þau fluttu í fyrir nokkrum mánuðum síðan en okkur hafði ekki unnist tími til að skoða. Þá spiluðum við á laugardagskvöldið við Sigrúnu og Ella. Ég segi aldrei frá hvernig gengur þegar ég tapa þó það hafi ekki munað nema örfáum slögum og Elli hafi náð því í seinasta spilinu með því að taka áhættuna. Vogum vinnur vogum tapar.

Vikan hefur gengið sinn vana gang. Það hefur rignt heilmikið en veður annars verið millt. Í gær fórum við á Súfistann um það leyti þegar GayPride gangan var. Nonni kom sér fyrir út á skyggninu og tók myndir. Við komum þar fyrir eitt og gangan fór ekki fram hjá fyrr en undir þrjú. Nonni tók um þrjúhundruð myndir.

Eftir að hafa velt fyrir okkur bíóferð í gærkveldi varð leningin rólegt kvöld heima. Nú er sunnudagur  og komið undir hádegi. Við sitjum hér upp á palli. Eftir bloggið fer Sigga að sauma og Nonni að vinna í myndum.  Við ætlum síðan að hjóla út eftir Álftanesi kaupa í matinn en Auðunn og fjölskylda og mamma Nonna koma í heimsókn í kvöld.

Nóg í bili kæru vinir

 

Ykkar Nonni og Sigga.


Verslunarmannahelgin

 

Við vorum ákveðin í því að aka ekki í halarófu eftir öllum hinum út á land um verslunarmannhelgina. Ekki fór svo að við færum ekkert eins og við ætluðum okkur en meira um það síðar.

Nú er verslunarmannahelgin afstaðin og þeir sem hafa verið afvelta eða sauðdrukknir á einhverri útihátiðinni að skríða til síns heima.

Sigureir og fjölskylda voru hérna um helgina en þau taka við íbúðinni í New York á föstudaginn. Stelpurnar höfðu verið fyrir austan fjall hjá ömmu Hebu og Kristjáni Geir nokkra daga. Við ætluðum hins vegar að hafa kvöldverðarboð á mánudagskvöldið. Okkur fannst tilvalið að bjóðasts til að sækja stelpurnar og sjá í leiðinni húsið sem þau búa í á Stokkseyri en Margrét Frímansdóttir byggði húsið fyrir nokkuð mörgum árum síðan en seldi fljótlega.

Maður hafði heyrt heilmikið um þetta hús. Það var sagt byggt við sjóvarnargarðinn og ekki bjóst maður við því að þar yxi nokkur gróður. Það kom hins vegar á óvart þegar við nálguðumst staðinn að umhverfis húsið virtist heilmikil gróðurvin. Kristján Geir upplýsti að garðurinn hefði hlotið verðlaun á sínum tíma. Umhiriða garðsins var ekki lengur með því móti að hann hlyti verðlaun. Hann var orðinn svolítið viltur. Fjöldi tegunda var samt gifurlegur og allt í blóma. Hann var þvi ákaflega skemmtilegur. Kristján sýndi okkur umhverfið. Við gengum upp á sjóvarnargarðinn, garðinn og skoðuðum húsið hátt og lágt. Heba var ekki búin að koma öllu dótinu sínu fyrir. Engu að síður var mjög hlýlegt og skemmtilegt að koma þarna, húsið stórt og mikið og nægilegt rými fyrir allt. Marta dóttir Kristjáns hafði komið sér fyrir í tveimur herbergjum og hafði svefnherbergi og skrifstofu. Húsið er annars hæð og ris. Timbur einingarhús frá Danmörku. Á efri hæðinni eru svefnherbergi, baðherbergi og hol. Eitt hverbergið hefur Kristján sem skrifstofu. Á neðri hæðinni er stórt eldhús hol og stofur. Svalir eru fyrir framan hjónaherbergið á loftinu og var Kristján að skipta um gólf . Svalirnar snúa að sjónum og veðurálagið of mikið fyrir furu. Hann var því að leggja harðviðargólf á svalirnar.

Eftir að hafa skoðað hús og umhverfi fengum við pönnukökur sem Heba hafði bakað á meðan. Við höfðum lagt á stað laust eftir hádegi og lögðum af stað til baka um þrjúleytið til þess að losna við mesta umferðarálagið. Fátt var um bíla á þrengslaveginum. Ekki virtist meira en venjuleg helgarumferð á Hellisheiði og rendum við heim á um 90 km. hraða í halarófunni sem við fylgdum. 

 Þegar í bæinn var komið keyrðum við Unni á Þinghólsbrautina til afa Péturs þar sem vinkona hennar vildi hitta hana. Sandra fór hins vegar með okkur heim. Sigga trylaði fram fiskisúpu og kom fjölskylda Sigurgeirs ásamt Pétri Guðfinns í mat.  

 Sigurgeir og fjölskylda fljúga síðan í dag til New York. Nú er komninn venjulegur vinnudagur. Hiti hefur lækkað niður í 10 gráður í stað 13. Það er logn og millt veður en rigning.

Elsku vinir og ættingjar.

 

Hafið þið það alltaf sem best og endilega skrifið í gestabókina þegar þið lesið þetta.

 

Ykkar Nonni og Sigga.

 


Fimmtudagurinn fyrir verslunarmannahelgi.

 

Hér á meginlandinu Íslandi (andstætt við eyjarnar sem kendar eru við Vestmenn) er að koma dæmigert verslunarmannahelgarveður. (langt orð) Það er semsagt helli rigning. Maður getur svo sem ekki kvartað. Síðustu daga hefur verið einmuna blíða farið yfir tuttugu stigin hér á mölinni sem þykir gott. Enn heitara hefur verið fjær sjónum.

Nonni fylgist með vexti eplanna beggja í garðinum á hverjum degi. Honum finnst þau vera að vaxta en hann er ekki viss. Til að auka von um einhverja ætilega uppskeru fækkaði hann þeim úr þremur í tvö.

Nú er síðari lyngrósin búin að missa öll blómin, nema kannski einhverjarar títlur sem sjást ekki nema færa til lauf hennar. Gulu rósirnar eru í fullum skrúða og þær rauðu eru byrjaðar að sýna fegurð sína.

 Eins og við höfum nefnt þá er verslunarmannahelgin að bresta á. Það er einkennilegt hvað menn verða vitlausir og rjúka í halarófum út úr bænum. Það er fátt sem mér þykir leiðinlegra en að láta einhverja lestarstjóra stýra hvernig maður ekur og ekki er það afslappandi í sumarleyfinu að fara fram úr heilli bílalest til þess eins að hanga aftan í þeirri næstu. Þá þykir okkur fátt leiðinlegra en drukknir menn ekki síst drukknir Íslendingar. En fyrir mörgum er þetta toppurinn á tilverunni þ.e. að hanga í halarófu til þess eins að hanga utan í fullu fólki jafnvel dauðadrukkinn sjálfur þegar á leiðarenda er komið.

Það er fátt svosem nýtt hjá okkur. Sigurgeir sonur Nonna ætlar að koma hingað í stutta heimsókn og Elín kona hans og börnin hættu við að fara til NY. Það verður því væntanlega frá meiru að segja eftir helgina

Læknir Nonna hefur gefið honum ný ónæmisbælandi lyf sem hugsanlega lækna hann alveg á svona sex mánuðum. Vonandi fylgja ekki eins slæmar aukaverkanir og af sterunum sem hann hefur tekið. Hann er bjartsýnn og er ánægður að reynt sé að gera eitthvað.

 

Kæru vinir og ættingjar um allan heim.

hafið þið það alltaf gott

 

Ykkar Nonni og Sigga.

 

 

 

 


Júlílok

Það er milt í veðri hér í Klettássnum eins og hefur verið síðari hluta júlí mánaðar. Það hafa komið þó nokkrir sólardagar alveg dýrlegir eins og ég hef sagt ykkur frá. Samt sem áður eru menn að kvarta yfir sumrinu. Það lét að vísu á sér standa. Síðari hluta júní og fyrri hluta júlí var maður orðinn vondaufur. Þá sagði Nonni við Siggu: " Við getum ekki kvartað þar sem við gátum keypt okkur sumar" þe. farið til útlanda.

Sumarið er svo ósköp stutt hér á Fróni að maður verður að njóta þess sem þó er ennþá betur. Ég sé á gróðrinum, hvernig hann braggast að við getum ekki kvartað. Enn sér á blöðum eftir vorhretið en það sem síðar hefur sprottið er gott.

 Ég tala um veðri hér í Klettás. Það er ekki af ástæðulausu því það getur verið hávaðarok í Kópavoginum þó það sé lygnt hér. Þannig var það a.m.k. í gær.

 Við keyptum okkur forláta álstóla í Rúmfatalagernum í gær. Eftir það fórum við að undirbúa veislu. Hingað komu 9 manns þe. Elín tengdadóttir Nonna, Unnur Ósk dóttir hennar og Sigurgeirs, Auðunn sonur Nonna og Súsanna kona hans með Knút litla son þeirra, Pétur Guðfinnsson pabbi Elínar, Kristján Geir æskuvinur Nonna ásamt konu sinni Herborgu, fyrri konu Nonna og síðast en ekki síst Hrafnhildur mamma Nonna. - Sannkallað fjölskylduboð til heiðurs þeim hluta Sigurgeirsfjölskyldu sem er hér á landi.

Sigga tryllaði fram ljúffengan fiskrétt og borðað var bæði inni og úti - standandi borðhald. Á eftir var skyrkakan hennar Siggu..

Boðið stóð stutt vegna tónleika Sigur - Rósar á Klambratúni. Eftir það komu Sigrún og Elli vinir okkar í heimsókn.

Á laugardaginn komu Hrafnhildur systir Nonna ásamt Friðrik manni sínum hjólandi í heimsókn og ef við förum enn aftur í tíman þá borðuðu Elín, Unnur Ósk, Pétur Guðfinns og Hrafnhiludr eldri hér á fimmtudaginn.

Annars allt gott kæru vinir og ættingjar. 

 

 Hafið þið það alltaf sem best

Með kærri kveðju frá Klettásfólkinu.


Sumarið á fullu

Maður var orðinn vondaufur með sumarið. Veðurfræðingarnir sögðu frá snemmkominni haustlægð og svo brestur það á með þvílíkri blíðu. Hægt hefur verið að spóka sig í stuttbuxum og stutterma bol og sólin hefur leikið við landsmenn flesta daga. Gróðurinn hefur þó fengið sitt svona inn á milli. Síðasta fimmtudag var alveg súper veður. Við fórum niður í bæ og borðuðum úti um kvöldið á Kaffi Reykjavík. Við rétt kræktum í borð með því að sjá það út þegar við keyrðum fram hjá og Sigga þaut út úr bílnum til að góma það. Miðbærinn var sneisa fullur eins og á sautjánda júní. Austurvöllur fullur af fólki, sitjandi á kaffistöðum, á gangi eða liggjandi í grasinu.

Þá hafa stelpurnar hans Sigurgeirs glatt okkur með nærveru sinni. Sandra dvaldi hjá okkur nokkra daga og Nonni fór með stelpurnar í sund. Pétur Þór er fyrir norðan hjá afa sínum og ömmu. Nú er Elín komin til landsins og dvelur hún ásamt stelpunum hjá föður Elínar.

Á þriðjudaginn fyrir sléttri viku voru þau í mat stelpurnar og Pétur (faðir Elínar tengdadóttur Nonna) og mamma Nonna (Hrafnhildur).

Á sunnudaginn var kom Hrafnhildur aftur í mat ásamt Kára föðurbróður Siggu og Guðrúnu konu hans. 

 Okkur hefur lengi langað í góða geymslu undir sessur í útistólana og jafnvel stólana sjálfa. Nonni var búinn að sjá viðarskýli sem okkur langaði í en fanst heldur dýrt. Við tókum okkur til og ætluðum að kaupa einhverjar kistur í Rúmfatalagernum þó okkur þætti þær frekar veigalitlar. Þegar við komum þangað var starfsmaður að setja saman plastskáp einmitt eins og við vildum hafa geymsluna. Það var ekki að sökum að spyrja við keyptum skápinn á staðnum. Ekkert verð var á honum því hann hafði fundist við hreinsun á lager og ekki verið skráður í kerfið. Okkur var boðinn hann á rúmlega kistuverði og var það mjög hagstætt. Þegar við vorum búin að ganga frá greiðslu var annar að falast eftir að kaupa sýningareintakið sem var verið að setja saman. Aðeins voru til þessir tveir skápar. Við vorum því heppin að ná þeirri sem við fengum.

 Nú er síðari alparósin á pallinum í fullum blóma. Litir blómana eru aðeins byrjaðir að fölna. Þá tekur við gamaldags fyllt rós (ekki te rós) og eftir henni byrja rauðar rósir að blómstra. Eplatré á pallinum er með þrjú epli og verður spennandi að sjá hvað þau ná að stækka fyrir haustið.

Sigga hælir þvottahúsinu í hvert sinn sem hún setur í vél. Það tók Nonna langan tíma að púsla því saman þó þvo hefði mátt þvotta nærri allan tíman. Það er mikill munur að þurfa ekki að bogra við að setja í vélarnar. Nóg er af þessum þvotti þó við séum aðeins tvö í heimili.

Nonni hefur verið latur að taka myndir upp á síðkastið. Hann og Steini vinur hans eru að plana ljósmyndaferð, hugsanlega um næstu helgi.

Nú er komið nóg í bili kæru vinir og ættingjar.

 Njótið lífsins meðan það endist.

Nonni og Sigga. 

 

 

 

 

 

 


10. júlí - Miðsumarsvæta

 

Yfir sumarið þá velti ég því stundum fyrir mér hvað það er stutt. Það er varla nema tveir mánuðir, frá miðjum júní til miðs ágústs. Stór hluti af þessum tima er rok og rigning. Þannig eru æði fáir dagar sem eru sól og blíða. Við kunnum hins vegar betur að njóta þeirra en aðrir og klæðum okkur barapeysur yfir há sumarið.

 Við ósköpumst yfir ástandinu, bilinu milli ríkra og fátækra sem ekkert var en er orðið verulegt vandamál, þá sérstaklega hvað þeir sem minnst hafa hafa lítið.  Við ósköpumst yfir kvótanum sem sumir hafa grætt á en við eigum öll. Við ósköpumst yfir eyðslu í sendiráð og veislur þegar ekki er hægt að greiða fyrir bráðnauðsynlega þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Við ósköpumst yfir því að enginn skilji málið okkar og kostnaðinum við að halda því uppi.

 Þrátt fyrir allt það neikvæða er gott að vera Íslendingur. Hér eigum við rætur í fjölskyldu og vinur, þekkingu á land og sögu. Við höfum ræktað með okkur sérstakan smekk sem leitast er við að þjóna. Við borðum kók og prins og lindusúkkulaði. Höfum heimsins bestu páskaegg og sumir éta jafnvel súrmat og hákarl. Allt er þetta partur af því að vera Íslendingur, hluti sem við hreinsum ekkert af okkur hvert sem við förum um heiminn.

Við fórum í giftingu systursonar hennar Siggu, norður á Akureyri. Þar fundum við fyrir tengslunum við ættingjana og tókum þátt í gleði brúðhjónanna. Fjölskyldan hjálpaðist að að gera þessa athöfn vel úr garði og hina skemmtilegustu. Skemmtanir i veislunni voru fram færð af ættingjum og vinum og eins tóku þeir þátt í matarundirbúningi og skreytingum. Þessi samheldni og samhjálp er svo mikilvægur þáttur í rótum okkar eitthvað sem við getum ekki flutt neitt annað og tengir okkur órjúfanlegum böndum þessu kalda, dimma og hráslagalega skeri.

Við fórum norður á föstudegi og komum norður um kvöldmatarleitið. Við gistum á Dalvík hjá foreldrum Siggu um nóttina og fórum til Sævars og Ellu um hádegisbilið á laugardaginn. Þau eru ný fltutt í einbýlishús á Akureyrir. Það var nærri fullbúið að innan en garður og múr á húsi eftir. Okkur þótti heimili þeirra mjög glæsilegt og mikill munur á því að´búa í blokk í Reykjavik og þessu glæsilega einbýlishúsi á Akureyri.

Eftir huggulegan eftirmiðdag með þeim hjónum fórum við í veisluna sem nefnd hefur verið. Matur hófst um kl. 8 eftir fordrykk, matarmikil fiskisúpa. Um hálf tíu var svo aðalrétttur. Um þrjá rétti var að velja - tveir fiskréttir og kjötréttur og síðan um miðnætti voru kökur - marenge og súkkulaði. Við Sigga reyndum að fara snemma en kl var langt genginn eitt þegar við loksins vorum búin að matast.

Við lögðum af stað til Reykjavíikur þegar kl. vantaði korter í átta um morgunin eftir. Með því að fara svona snemma sluppum við við umferðina sem var mjög mikil að sögn lögreglu síðar um daginn. Kalt var í veðri á leiðinni allt niður í 5 stig a heiðum. Það hittnaði strax og suður kom og voru 16 stig í Reykjavik þegar við komum þangað um kl. 13. Um kvöldið komu Auðunn og fjölskylda og Hrafnildur mamma Nonna til okkar í kvöldmat. Svín grillað með ýmis konar meðlæti.

 

Nóg í bili kæru vinir og ættingjar.

 

Harfið þið það alltaf gott

 

Ykkar

 

Nonni og Sigga.

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna

 

4. júlí og 14. júlí eru merkis dagar í þróund þeirra mannréttinda og lýðræðis sem við þekkjum. 4. júlí er minnst sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna (1776) og 14. júlí er Bastilludagurinn en árás á það allræmda fangelsi er upphaf Frönsku byltingarinnar 1789.

 En það er semsagt kominn 4. júlí. Fyrstu árin sem Nonni bjó á Hringbrautinni svona fyrir fjórðung úr öld síðan, þá héldu Dennis og Ingibjörg sem þá voru nágrannar alltaf garðpartý þennan dag. Það voru skemmtillegar veislur. Það var líka alltaf sólskin og blíða í þá daga!!.

 Nú rignir hins vegar á Fróni sem alldrei fyrr. Menn sætta sig við þetta þar sem hvorki er kalt eða rok.

 Sigga hefur verið að æfa sig á nýju saumavélinni. Hún tók sig til og stytti gardínukappa í stofunni. Í stað þess að klippa efnið þá tvöfaldaði hún það. Það var tvöfallt fyrir og er nú orðið fjórfalt. Þetta var sodan hýalín að það ber ekkert á því.

Nonni hefur hins vegar verið að setja upp innréttingu þvottahúsið. Við skruppum niður í IKEA og fengum okkur skápa undir þvottavél og þurkara ásamt plötu, vaskaskáp og skúffuskáp þar við hliðina og tvo kústaskápa. Þetta hefur tekið vikuna að púsla þessu saman og mála herbergið. Kristján sonur Siggu hefur hjálpað við pípurnar.

Nonni er kominn yfir erfiðasta hjallan í þessu dæmi en tímafrekar innansleikjur eru eftir. Innifalið í þessu er að sníða til borðplöturnar, gera gat fyrir vask og krana og festa í plötuna. Þetta er ef til vill ekkert flókin smíði en engu að síður full nóg fyrir óvana.

 Við höfum að venju fengið heimsóknir - m.a. spilakvöld með Ella og Sigrúnu með einni sunnudagakrossgátu sem eftirmála og Ella og Birgir á Selfossi litu við í Kaffi.

 Palli og Gabríela eru komin frá Kanaríeyjum og litum við við hjá þeim í vikunni, við heimsóttu Kjartan (bróðir Nonna) og Dísu og skoðuðum hvernig gengur með að innrétta háaloftið hjá þeim.

Framan af æfi létu þau sér nægja þriggja palla raðahús í Fossvoginum en eru nú flutt í stærðar einbýlishús við Elliðavatn. Á því er mikið ris sem hefur verið óinnréttað. Nú hefur Bjarni sonur þeirra lokið námi í grafískri hönnun og hyggur á framhaldsnám erlendis. Hann ætlar ekki strax út heldur hyggst hann búa þarna á loftinu hjá foreldrunum ásamt konu og barni. Þetta þýðir að farið var út í að innrétta loftið. Súðin er panleklædd og veggir úr gipsplötum. Innréttingin var langt komin og virtist hin ágætasta smíð. Kjartan vinnur að henni ásamt sonum sínum. Það skemmtilega við að gera svona sjálfur að maður hefur tækifæri að kaupa alls kyns fín verkfæri. M.a. fjárfesti Kjartan í forláta borðsög og loftpressu. Loftpressuna notar hann til að knýja naglabyssu eða heftibyssu sem festir borðin í loftið.

 Alparósin sem tók á móti okkur í fullum blóma þegar við komum heim er að fella blóm. Sú rós er nokkurra ára orðin um 70 cm að ummáli og sást varla í laufið fyrir blómum.  Nonni keypti aðra í vor, setti í stærri pott með súrum jarðvegi og nú launar hún greiðan með því að taka við. Þegar sú gamla er fallin ætlar sú unga að skarta sínu fegursta.

 Á sunnudaginn (nú er þriðjudagur) fórum við á kaffihús og kringluráp með Hrafnhildi mömmu Nonna eins og oft áður. Hún þreytist voða hratt á slíku. Maður sér sársaukann í andliti hennar í lokin. Hún kvartar samt aldrei og segir að hún verði að hreyfa sig. (Hún er öll úr lagi gengin vegna beinþynningar. ).

 

Verðið þið nú sæl elsku vinir og ættingjar og hafið þið það alltaf gott. Fyrirgefið hvað það er langt síðan við skrifuðum síðast.

 

Ykkar

 

Nonni og Sigga

 


Komin heim

Í dag er sunnudagurinn 25. júní. Við byrjuðum daginn með göngutúr, þá keyptum við blóm á leiðið hans kristjáns heitins og settum þau niður. Við erum vön að gera slíkt fyrir sjómannadag en það tafiðist vegna kulda og svo vegna ferðarinnar okkar.

 Við keyptum Cybris tré til að hafa í pottum við innganginn en þau sem lifað höfðu af veturinn þoldu ekki vatnsleysi meðan við vorum í burtu. Helga Haraldsdóttir, vinkona Ellu Hönnu býr hér rétt hjá. Var hún í göngutúr með barnabarn í kerru, stoppaði við og þáði svart og sykurlaust kaffi. Þá fórum við að hafa okkur til  fyrir næsta dagskrárlið sem var veisla í tilefni útskriftar Helgu Guðrúnar Friðriksdóttur, Sophussonar og Helgu Jóakimsdóttur. Kristján kom með okkur í veisluna.

Í gær heimsóttum við Auðunn, Súsönnu og Knút þór. Um kvöldið kom Hrafnhildur mamma Nonna í mat og horfði með okkur á DVD disk sem við höfðum keypt.  Daginn sem við komum að utan 23. fórum við í heimsókn til Ella og Sigrúnar.

 Það var gaman að sjá hvað hann Knútur Þór er orðinn stór. Hann fæddist mánuði fyrir tíman 12. apríl og hefur nú náð fullri þyngd miðað við fullburða börn. Hann nærist nærri eingöngu á brjóstamjólkin sem Súsanna segir að sé hreinn rjómi.

 Elsku vinir og ættingjar. Hafið þið það gott  það höfum við.

 

Ykkar

 

Nonni og Sigga


Daginn eftir þjóðhátíð

 

 Það var reglulegt þjóðhátíðarveður hér í Greenwich í gær 17. júní. Fólkið drífur sig út í Greenwich park og þar er ísbíll og sannkölluð þjóðhátíðarstemming þó enginn fatti að það sé ekki bara venjulegur laugardagur. Efst í garðinum er rennislétt rautt malbik sem hjólaskautaliðið notar óspart. Margir hafa lítil tjöld með sér grill og hvaðeina til góðrar lautarferðar eins og það kallast víst á íslensku.

Í fyrradag (16. júní) fórum við niður í miðborg Greenwich á markað og skoðuðum gamallt te skip Cut Sark Það var byggt skömmu eftir miðbik þar síðustu aldar og var einstaklega hraðskreytt. Mikilvægt var að hafa slík skip hraðskreið til að koma teinu sem fyrst á markað. Þegar það hóf siglingar var ekki búið að grafa Suesskurðinn. Leiðin suðurfyrir Afríku var svo löng að ekki borgaði sig að sigla gufuskipum. Kolafarmur til slíkrar ferðar hefði tekið nærri allt lestarrýmið. Síðan var Suesskurðurinn grafinn og komið fyrir kolahöfnum á leiðinni og í Kína. Eftir það urðu dagar þessara hraðskreiðu seglskipa taldir. Skipið var selt til Portúgal fyrir rúm 2000 pund og nokkrum áratugum síðar var það keypt aftur til Englands fyrir rúm 3000 pund. Það var gert að skólaskipi og þjónaði það sem líkt fram yfir seinustu heimstyrjöld þegar það fékk legstað í þurrkví hér í Geenwich.

 Fyrir dyrum standa miklar endurbætur á skipinu sem eiga að hefjast sumarið 2007.  Að sjálfsögðu fylgdi ferðiinni að setjast inn á kaffihús og drekka ískaffi og ganga síðan í gegnum Greenwich garðinn heim í Highmore road.  ´

 Í gær fór Elín með krakkana til NY í próf fyrir skóla þar. Við erum því í hundspössun og byrja dagarnir og enda með göngutúr með Castro og síðan höfum við aðra hluta dagsins frjálsa fyrir okkur. Eftir gönguferð i garðinum fórum við niður í Blackheat bæinn og fengum okkur að borða á Café Uno sem er Ítalskur veitingastaður.

 

Í dag fórum við niður í miðborg Lundúna og gengum þar um stund - frá Charing Cross. Fyrir framan National Gallery var Indversk hátíð. Torgið var fullt af Indverjum og Englendingum klæddum indverskum búningum. Bænasamkomur við tignun Cristna guðsins voru þar, dansatriði og langar biðræðir eftir mat, litrík klæði og tjöld. Við fórum síðan að St. James Park og eftir Whit hall að Charing Cross og til baka heim. Lestin sem við tókum til baka virðist hafa verið hraðlest og stoppaði ekki á Mase Hill stöðinni sem næst er Highmore road.  Við urðum því að taka leigubíl frá næstu lestarstöð. Úthaldið er nú ekki meira en svo að göngutúr í garðinum með Castró og stuttur göngutúr niður í bæ er alveg nót fyrir okkur. Þá er hægt að taka því rólega hér á Highmore road. Hvíla sig - horfa á íslensku fréttirnar í beinni á netinu hekla (það gerir Sigga) og lesa einhvað í bókunum sem Nonni hefur keypt sér. Hér eru fjöldi bókabúða sem selja bækur á 2 pund hverja. Nonni hefur keypt heildar verk Oscars Wilds, - The Nations Favorite Poems og Rights og Man eftir Thomas Paine. Thomas Paine var uppi á tímum frönsku byltingarinnar og boðaði ýmisleg félagsleg réttindi öld áður en það kom til í Bretlandi.

Þetta er nóg í bili elsku vinir og ættingjar.

 

Hafið þið það öll gott hvar sem þið eruð

 

Ykkar Nonni og Sigga.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Dagbók Klettássfólksins

Þetta er dagbók Jóns Sigurgeirssonar og Sigríðar Harðardóttur Klettási í Garðabæ. Henni er haldið út vegna fjölmargra vina og ættingja sem eru fjarri okkur í vegalengdum mælt.

Höfundur

Sigríður Harðardóttir
Sigríður Harðardóttir

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG 3267 edited 1
  • 20080524 IMG 2486
  • 20080524 IMG 2512
  • 20080524 IMG 2553
  • 20080524 IMG 2553

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband