8-12 júlí

12. júlí.

Það hefur verið yndislegt veður það sem af er frísins. Nú erum við á Selfossi í rigningu. Það er svo sem freystandi að fara heima og vera þar yfir blauta helgi. Við ætlum samt að njóta veðursins með því sem það hefur upp á bjóða þ.e. huggulegheitum inn í bílnum.  Þá erum við vel búin regngöllum og ætlum að hjóla út í Bónus o.fl.

En víkjum aftur til 8. Júlí þegar við hættum síðast.  Við enduðum síðustu skrif  með áætlun um að fara á Selfoss. Á leiðinni ókum við fram hjá afleggjara að sumarbústað Gabríelu stjúpdóttur Siggu.  Nonni spurði Siggu hvort Gabríela væri í bústaðnum og taldi Sigga svo ekki vera svo við héldum áfram að Selfossi. Undir Ingólfsfjalli hringdi Síminn. Það var Gabríela. Hún hafði séð bílinn aka fram hjá Þrastalundi þar sem hún var stödd, reynt að veifa án árangurs.  Við hittum hana ásamt dætrum hennar þremur á Olísstöðinni við  brúarsporðinn á Selfossi þar sem hún bauð öllum upp á ís. Það er alltaf gaman að hitta þessa yndislegu fjölskyldu.
Við  keyptum  síðan inn og héldum í þjórsárver samkomustaðinn  rétt fyrir neðan Urriðafoss í þjórsá.  Við komum okkur þar fyrir og kynntumst eldri hjónum af austfjörðum. Konan hafði byrjað barneignir 16 ára og stoppaði eftir 7 unda barnið þá 26 ára. Það voru engar getnaðarvarnir sagði hún nema smokkurinn og annað hvort var kynlífsbindindi eða barneignir. Mér var hugsað til áróðursins fyrir að nota smokkinn í dag en sagði ekkert.  Upphaf kynnana var að þau báðu Nonna að aðstoða sig við sjónvarpið. Nonni kenndi þeim á það, en það þarf að leita að rásum sjónvarpsins á hverjum nýjum stað. Upp frá því vorum við vinir þeirra og þau gættu svæðisins meðan  við skottuðumst um á bílnum.

Fyrsta kvöldið var rólegt. Við náðum sjónvarpssambandi og hlustuðum á fréttirnar í ríkissjónvarpinu. Okkur þykir dagskrá þess ekki merkilegt og höfum ekki horft á annað en fréttir.

Það var sólskyn og hiti þegar við vöknuðum eins og  fyrri dagana. Við ætluðum að fara með hana Unni Sigurgeirsdóttur sem dvelur hjá Hebu ömmu sinni á Stokkseyri  í hjólatúr.
Þegar við vorum á leiðinni út af tjaldstæðinu  hittum við vinafólk okkar Ástu og Halla. Þau voru á húsbíl sem þau höfðu nýlega fest kaup á – höfðu áður verið með hús á pallbíl (PicUp) Við sögðumst mundu hitta þau þegar við kæmum til baka.
Heba hafði sagt að hægt væri að fá lánuð hjól hjá sundlauginni á Selfossi. Við fórum því á Stokkseyri upp úr hádegi og sóttum Unni, fórum með hana á Selfoss og reyndum að fá hjól lánuð. Þau voru öll í lamasessi, vindlaus dekkin – líklega sprungin dekkin. Við gengum fram og til baka eftir aðalgötunni til að finna ísbúð sem Unnur sagði að bæri af öðrum. Að lokum tókst að finna hana og Unnur pantaði sér ís í stóru pappaformi með niðurmuldu alls kyns sælgæti. Algjört dúndur. Við fengum okkur barnaís. Venjulega eru barnaísar litlir en ekki virtist miklu til sparað í þessum ísum. Við fundum strax af hverju Unnur vildi fara í þessa ísbúð því ísinn var óvanalega sætur.  Eftir ísbúðina gengum við nokkra stund um Selfoss og héldum síðan á Stokkseyri aftur og drukkum hjá Ömmu Hebu. Hún  var að mála húsið sitt sem er timburhús við sjávarkambinn og þarf því mikið viðhald. Hún gaf sér  þó tíma í smá spjall á veröndinni.

Við hittum Ástu og Halla smá stund um kvöldið – elduðum okkur nautahakk á pönnu með venjulegum 300 gramma grænmetisskammti að hætti dönsku vigtarráðgjafanna og höfðum það rólegt .

Nú er komið að  10 júlí. Við höfðum pantað tíma í reiðtúr fyrir Nonna og Unni.  Við höfðum sammælst við Hebu að koma með Unni á Selfoss um kl. 12 og áttum að vera mætt að Egilstöðum 1 rétt við Þjórsárver kl. 13. Við gáfum okkur tíma fyrir smá spjall við Hebu áður en við héldum til Egilstaða. Reiðtúrinn átti að vara einn og hálfan tíma. Sigga ætlaði að sóla sig á meðan við húsbílinn. Í stað þess að hestarnir væru klárir og allir settir á bak og ferðinni lokið á tilsettum tíma voru hestarnir valdir, farið með þá inn í hesthús. Þar voru helstu tökin kennd og þátttakendur kemdu hver sínum hesti. Þá voru hnakkar sóttir og beisli og hver fékk sinn hjálm við hæfi. Allt tók þetta feikilegan tíma. Nonna fannst nú lítill tími til reiðar ef standa ætti við eins og hálftíma planið.  Þá var haldið út og enn kennt að fara á bak og farið enn frekar yfir stjórnun hestanna. Tíminn var næstum búinn en saman riðum við þýskt par, við Unnur, þýsk stelpa sem var í vinu á bænum og bóndinn sjálfur. Fyrst var farið fetið.  Þá var farið á hægu tölti.  Eftir svolítinn tíma var farið út af veginum um hestaslóð sem lág þar um móann. Komið af rúst sem bóndinn sagði að væri af gömlum fjárhúsum, riðið niður að veginum aftur og upp að Urriðafossi. Þar var farið af baki og tekin mynd og vatnsmesti foss landsins skoðaður. Áform eru uppi um að virkja neðri hluta Þjórsár og verður þá fossins aðeins smá spræna miðað við það sem hann er nú.  Á leiðinni út af mólendinu þurfti að ríða niður nokkurn bratta. Leiðbeint var að halla sér aftur en þetta reyndi á og þurfti Nonni að stíga af baki og liðka sig aðeins eftir þá raun.

Eftir þrjá og hálfan tíma lauk síðan þessu ævintýri.  Reiðtúrinn tók einn og hálfan tíma eins og lofað var og var hitt allt saman viðbót.

Sigga hafði að vonum orðið svolítið óróleg. Þau voru þreytt Nonni og Unnur. Við héldum að þjórsárveri.  Nonni grillaði hunangslegnar reyktar svínakódelettur.  Við ræddum aðeins við hjónin  sem við sögðum ykkur frá og lagði Unnur sig á meðan.  Sigga setti í þvottavél og við lentum í basli með hana vegna þess að þvotturinn tók lengri tíma en peningamaskínan gerði ráð fyrir. Á meðan Nonni kom til hjálpar grilluðust kódeletturnar aðeins meira en ætlað var. Þær runnu samt ljúflega niður og enginn kvartaði.

Eftir matinn ókum við Unni niður á Stokkseyri. Kristján var að hlaða bíl þeirra hjóna af græjum fyrir Rakú þ.e. sérstök keramikbrennsla. Þó klukkan væri að ganga 9 að kveldi var ætlun þeirra að fara að brenna rakú líklega fyrir bryggjuhátíð sem átti að vera um helgina næstu.
Við kvöddum því og Nonni fór aðeins í heitapottinn í sundlauginn á staðnum til að ná úr sér stirðleikanum eftir reiðtúrinn.

Í pottinum var maður sem Nonni þekkti ekki í fyrstu en tók tali. Hann kvaðst hafa búið á Eyrabakka seinustu 20 árin. Hann spurði Nonna hvort hann væri héðan. „Nei en fyrrverandi kona mín býr í húsinu sem Margrét frímansdóttir byggði“ – „Já Herborg Auðunsdóttir svaraði  maðurinn, Hún er vinkona fyrstu konunnar minnar. Það kom í ljós að hann hafði verið í partýhóp sem Heba var í þegar Nonni og hún kynntust og höfðu þeir verið í partýum saman á gamladaga.  Spjölluðu þeir um fólkið sem hafði verið með þeim í þá daga og nokkuð af því sem drifið hafði á daga þeirra.

Sá siður er þarna í sundlauginn að færa gestum drykk í pottinn. Nonni þáði djús og fannst þetta einstaklega huggulegt.

Þá var haldið í Þjórsárver og farið snemma í háttinn.

11. júlí  héldum við á Selfoss. Við byrjuðum á að fara á tjaldstæðið og koma okkur fyrir. Þar hefur verið byggð aðstaða sem er til fyrirmyndar. Mjög hreinlegt og nýtt hús með salernum, sturtum og þvíumlíku. Þá var hægt að þvo þvott í vél.  Við löguðum svolítið til, hjóluðum um bæinn, fórum á kaffihús og höfðum það gott.  Eftir kvöldsnarl  hjóluðum við til Elínar og Birgis – en Birgir hafði verið útibússtjóri Landsbankans á Ísafirði. Þau höfðu byggt hús á Selfossi, n orðan ár fyrir áratugum og selt það þegar þau fluttu vegna starfa Birgis. Þau höfðu keypt það aftur þegar Birgir hætti að vinna. Það var í niðurníðslu og hafa þau endurnýjað það allt. Nýtt gólfefni, eldhúsinnrétting, baðinnréttingar. Allt er þetta eins og best verður á kosið. Birgir hefur séð um þetta allt sjálfur og hefði enginn iðnaðarmaður gert það betur. Allt gert af mikilli vandvirkni og smekkvísi. Þau voru langt komin með þetta þegar við heimsóttum þau seinast en þá var garðurinn ófrágenginn. Nú höfðu þau fengið verlaun fyrir garðinn. Þau höfðu látið hanna hann og síðan hafði Birgir hlaðið veggi, lagt stéttar  sléttað flötinn og skorið, komið fyrir fjölda ljósa í planið og beðin og fleira og fleira,  allt af mikilli vandvirkni. Við ræddum við þau yfir bollum af tei og kaffi með kræsingum með og hjóluðum heim um 11. Leytið.

Kæru vinir og ættingjar 
Við sendum ykkur okkar bestu óskir

Ykkar vinir og ættingjar

Nonni og Sigga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kæru vinir, nú komst ég aldeilis í feitt við að lesa síðustu færslur. Það er bæði fróðlegt og skemmtilegt að lesa frásagnir ykkar af ferðum ykkar og samveru við fjölskyldur og vini, gamla og nýja. Svona er lífið óútreiknanlegt, alltaf eitthvað að gerast. Svona á maður að njóta lífsins, sama hvort það er rigning eða sól.

Eigið gott sumarfrí áfram,

kær kveðja frá okkur í Portúgal

Þórunn og Palli 

Þórunn Elísabet (IP-tala skráð) 13.7.2008 kl. 08:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Dagbók Klettássfólksins

Þetta er dagbók Jóns Sigurgeirssonar og Sigríðar Harðardóttur Klettási í Garðabæ. Henni er haldið út vegna fjölmargra vina og ættingja sem eru fjarri okkur í vegalengdum mælt.

Höfundur

Sigríður Harðardóttir
Sigríður Harðardóttir

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG 3267 edited 1
  • 20080524 IMG 2486
  • 20080524 IMG 2512
  • 20080524 IMG 2553
  • 20080524 IMG 2553

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband